Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

um fundarstjórn.

[14:11]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi. Í framhaldi af orðum hæstv. forseta hér áðan þá er það auðvitað ekki hlutverk forseta að segja ráðherrum hvernig þeir eigi að svara, en þegar formenn stjórnmálaflokka eru spurðir um hver pólitísk sýn þeirra sé á einhver tiltekin mál í samfélaginu þá er ekki erfitt að gera þá kröfu að ráðherrarnir svari þeirri fyrirspurn. Auðvitað er það stundum þannig að ráðherrarnir geta ekki sagt hvað þeim finnst vegna þess að þá logar allt í deilum við ríkisstjórnarborðið enn eina ferðina. Í þessu samhengi er áhugavert að fjölmargir aðrir ráðherrar voru búnir að lýsa skoðun sinni á þessu tiltekna umfjöllunarefni sem ég nefndi í fyrirspurn minni í gær, en ég fékk ekki svar frá formanni Framsóknarflokksins. Því ætla ég að taka undir að við hljótum að geta gert þá kröfu að ráðherrar svari skýrt og kinnroðalaust þegar þeir eru spurðir um skoðun sína, pólitíska sýn og sannfæringu.