Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

almenn hegningarlög.

45. mál
[14:56]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er áhugavert að rifja hér upp að mér finnst eins og það hafi verið fyrir einhverjum kynslóðum síðan að samkynhneigð hjónabönd voru leyfð hér á Íslandi. Það eru 15 ár síðan. Ég man vel dómadagsspárnar sem þá flæddu yfir samfélagið frá ákveðnum aðilum, gott ef hjónabandið sem stofnun var ekki ónýtt. Ég veit ekki betur en að raunveruleikinn hafi afsannað þær spár. Ég veit ekki betur en gagnkynhneigt fólk giftist sem aldrei fyrr þrátt fyrir að hinsegin fólk geti gert það líka. Þetta er nefnilega yfirleitt þannig með réttindi, að það tekur ekki réttindi af einum þó að annar fái þau. Það er það jákvæða við það en merkilegt hvað hægt er að misskilja það.

Varðandi stöðu hinsegin ungmenna — hún er skelfileg. Ég ætla líka að leyfa mér að segja að staða ungmenna sem ekki tilheyra hinsegin samfélaginu en taka þátt í þessu niðurbroti er líka skelfileg. Það er eitthvað sem við þurfum að horfast í augu við. Það er eitthvað að og þar með beinist athyglin að skólakerfinu okkar. Vissulega að foreldrum, drottinn minn dýri, en skólakerfið verður að fá tæki og tól til að bregðast við þessu. Þá erum við kannski komin að því, við erum jú að tala um lög, hvað hægt sé að gera. Eitt af því sem hægt er að gera betur er að tryggja námsefni, ekki bara í grunnskólanum heldur á öllum skólastigum og í skennaranámi vegna þess að grunnurinn að þessu er að tala sama tungumálið, að það sé hægt að tala um þessa hluti þannig að fólk skilji. Eins og við vitum þá spretta fordómar iðulega af vankunnáttu og vanþekkingu og hræðslu sem kemur í kjölfarið. Við tölum hér um hvað við getum gert næst. Við þurfum að aðstoða kennara og aðra við að leiðbeina ungu fólki, hvernig þeir geta best gert það og haldið utan um þennan hóp. Mig langar að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um það.