Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:40]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að varpa því upp hér hvernig túlka megi fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar í þeim faraldri sem gekk yfir fyrir ári síðan. Í ríkisreikningi er talað um 30 milljarða átak 2021, heildarheimildin sem var veitt til fjárfestingar var 120 milljarðar. Af því gekk helmingur út. Hver var það sem ákvað hjá fjármálaráðuneytinu að það væri átaksupphæðin sem gekk út en ekki eitthvað annað? Ég átta mig ekki alveg á hvernig á að túlka þessar upphæðir. Það liggur auðvitað fyrir að eitthvað hefur misfarist vegna þess að helmingurinn af samþykktri fjárhæð fór ekki út. Við sjáum það líka í ríkisreikningi 2020 en þar er talað um að hafi verið 15 milljarða átak. Heimildin fyrir fjárfestingu á árinu var hins vegar 85 milljarðar en aðeins rúmlega helmingur gekk út. Því varpa ég þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra: Hvar er fjárfestingarátakið eiginlega í þessum tölum miðað við allar þær upphæðir sem voru samþykktar en gengu ekki út? Mér finnst þetta mikilvæg spurning vegna þess að í yfirstandandi fjármálaáætlun, fyrir 2023–2027, er vakin athygli á því að stefnt sé að 100 milljarða fjárfestingu árlega á því tímabili. Hins vegar tókst okkur ekki að fara upp í þá fjárfestingu 2021, ég veit ekki enn sem komið er hver staðan er 2022. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig ber að túlka þessar tölur? Gekk þetta fjárfestingarátak upp í ljósi þess að gífurlega háar upphæðir falla dauðar niður á milli ára?