Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hér er snert á mjög mikilvægu máli og það er alveg hárrétt að við höfum ekki náð að framkvæma fyrir allar fjárheimildir sem veittar hafa verið á fjárlögum og það birtist okkur í uppgjöri viðkomandi árs, sem er ríkisreikningurinn. Hvað verður um viðbótarfjármagnið? Það fellur ekki allt niður dautt heldur stóðu mjög háar fjárhæðir vannýttar um áramót og fluttust á milli ára. Það er alveg sérstakt umræðuefni og er kynnt fyrir fjárlaganefnd hvernig það gerist fyrir einstaka fjárheimildir. Við getum tekið sem dæmi vilja Alþingis frá árinu 2020 til að ráðast í fjárfestingarátak vegna hjúkrunarheimila sem hljóðaði upp á 1350 milljónir á sínum tíma, síðla árs 2020 var það ákveðið hér á þinginu. Þær heimildir náðu ekki að ganga út á árinu 2021 og samt sem áður tekur þingið ákvörðun um að bæta aftur við, þannig að í upphafi þessa árs vorum við í raun og veru með uppsafnaðar 2.700 milljónir í fjárfestingarátak í hjúkrunarheimilum sem við vonumst að sjálfsögðu til að geta komið hraðar út en reynslan hefur sýnt. Í því samhengi má nefna að verkefni sem hefur verið í byggingu undanfarin ár var loks að opna og við sáum það í fréttum vikunnar að nú er risið glæsilegt hjúkrunarheimili í Árborg.

Önnur verkefni eru stærri. Ég nefni sem dæmi nýja Landspítalann, meðferðarkjarnann. Þar erum við með uppsafnaðar heimildir upp á um 10 milljarða sem gengu milli ára og það er vegna þess að við erum að ræða þetta hérna á þessum GFS-staðli að jafnaði. Þegar við erum að velta fyrir okkur áhrifum ríkisfjármálanna á hagkerfið þá hafa þessar stóru tölur raunverulega þýðingu. Það skiptir máli að við séum með góðar upplýsingar um framkvæmdagetuna, framkvæmdahraðann og hver hin endanlegu áhrif verða af — já — fjárfestingarátakinu sem við höfum verið í. Í mínum huga skiptir það ekki alveg öllu máli hvort fjárfestingar sem hefðu (Forseti hringir.) getað átt sér stað í nóvember eða desember færast yfir í janúar eða febrúar. Að því leytinu til getur sumt af þessu bara skilað sér inn í hagkerfið eins og til stóð þótt það gerist ekki akkúrat á því almanaksári sem að var stefnt.