Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[19:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er náttúrlega mál sem á sér margar víddir. Hér í andsvörum áðan vorum við að ræða það hvort við ættum að byggja tekju- og gjaldaáætlun ríkissjóðs á langtímahagvexti frá einu ári til þess næsta. Ég held að það væri of ströng viðmiðun að fylgja, þá væri í raun og veru búið að taka úr sambandi nánast fjárstjórnina á ríkissjóði. Hins vegar er ég sammála því að þegar það gerist að það kemur sprettur í hagkerfið, ef það verður mjög mikill hagvöxtur í tvö, þrjú ár sem er langt umfram meðaltalshagvöxtinn, þá þurfa menn að gæta sín á því, sem ég held að sé hér undirliggjandi hugsun, að ráðstafa ekki öllum slíkum ávinningi þá þegar í varanlega útgjaldaliði sem menn sitja uppi með þegar hagvöxturinn hættir og þannig steypa ríkissjóði um leið í mjög mikinn halla. Það er þetta sem ég held að fjármálaráð hafi dálítið verið að vara við. Þau hafa verið að einblína á útgjaldahlið ríkisfjármálanna og spyrja sig hvort þær tekjur sem standa undir vexti útgjaldahliðarinnar séu varanlegar og vaxandi í sama mæli og þær eru kannski akkúrat þá stundina þegar þessi nýju útgjöld eru ákveðin. Þegar við erum að ræða þetta þá ættum við kannski helst að vera að hugsa um stóru kerfin okkar. Við ættum að vera að hugsa um almannatryggingar, um heilbrigðiskerfið, um félagsmálin heilt yfir. Þetta eru kerfin sem við þurfum að passa okkur á að stækka ekki of mikið á toppi hagsveiflunnar og sitja uppi með gríðarlegan útgjaldavöxt vegna þeirra þegar kannski minna er um að vera í hagkerfinu.