153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

söluferli Íslandsbanka.

[15:27]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að heyra þetta svar því að það fjallaði að einhverju leyti um framtíðina, en var ekki eitthvert tal um Icesave eða Evrópusambandið eins og hjá hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni í gær þegar við vorum að tala um bankasöluna, mjög óvænt. Ég skil auðvitað vel að menn velji sér svolítið valkvæða fortíð þegar verið er að ræða þessa bankasölu, vegna þess að ríkisstjórnin er með bakið upp við vegg í nauðvörn og þá er gott að halla sér í vel þekkt skjól.

Hins vegar vil ég árétta og taka skýrt fram, af því að við erum að velta fyrir okkur næstu skrefum, að ef við ætlum að velja okkur einhver dæmi úr fortíðinni þá ættum við frekar að hafa það í huga að það voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem færðu okkur einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans á silfurfati, sem var upptaktur að heilu bankahruni. Það held ég að væri heppilegra viðmið en margt annað.

Mér fannst svar hæstv. ráðherra ekki vera nægjanlega skýrt, vegna þess að gert er ráð fyrir því að á næsta ári eigi að koma inn rúmlega 70 milljarðar vegna bankasölunnar. Þar sem á að fara sér hægt og nota varfærin skref, þegar við erum ekki einu sinni með stofnun til að sjá um sölu (Forseti hringir.) og eigum eftir að fara í gegnum allt það ferli á Alþingi, þá verð ég eiginlega að draga þá ályktun að þetta sé eitthvað sem vanti inn í fjárlögin. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því?