Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

frestun á skriflegum svörum.

[11:14]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar þekkjum það að ráðherrar koma í óundirbúnar fyrirspurnir tvisvar í viku. Jafnan er niðurstaðan sú að þeir svara ekki þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar. Þess vegna beitum við því verkfæri að senda inn skriflegar spurningar. Við viljum fá skrifleg svör. Hvað gerist þá? Þeim er heldur ekki svarað. Fyrir 35 dögum síðan sendi ég hæstv. fjármálaráðherra spurningu sem varðar 75 milljarða kr. hagsmuni. Ég spurði hann að því hvort nýtt fyrirkomulag bankasölu sem ríkisstjórnin boðaði með fréttatilkynningu um páskana, væri forsenda frekari sölu og hvort það var einhugur í ríkisstjórninni um frekari sölu á Íslandsbanka. Einhverra hluta vegna hefur fjármálaráðherra á 35 dögum ekki treyst sér til að svara þessari spurningu. Það segir auðvitað óskaplega mikið. En forseti þarf að standa með þinginu í því að kalla fram svör. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)