Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Frestun á skriflegum svörum.

[11:18]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma upp og taka undir með þeim sem eru að kalla eftir svörum við fyrirspurnum. Það er verkfæri okkar þingmanna, hvort sem er í stjórnarandstöðu eða í stjórn, að bera fram fyrirspurnir til ráðuneytanna og ráðherra og fá svör við þeim. Það hefur með eftirlitshlutverk okkar að gera, eins og kemur fram í þingsköpum. Ég held að það séu ekkert færri fyrirspurnir sem koma frá stjórnarþingmönnum en frá stjórnarandstöðunni. Þetta er mikilvægt tæki. Ég held því að það sé mikilvægt að við fáum skýr svör.

Í sambandi við lekann þá held ég að við eigum ekki endilega að ræða hann. Við komumst ekki að því í þessum ræðustól hver lak, en það er mikilvægt að við séum meðvituð um þetta. Forseti hefur tekið þetta til sín og það á að skoða það og mér finnst það mikilvægt. Ég er ekki að ásaka einn né neinn en þetta er stórt mál sem við verðum að undirstrika, hvort sem við rannsökum þetta eða tökum þetta til okkar hvert og eitt.