Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

frestun á skriflegum svörum.

[11:22]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp í kjölfarið á hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur og tek í sama streng. Ég ætla líka að fá að nota tækifærið hér og bera af mér sakir eftir þær mjög svo ómerkilegu dylgjur, ef vert er að nefna einhverjar dylgjur, að það hafi að sjálfsögðu verið þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem láku þessari skýrslu. Svo það sé algjörlega sagt hér mjög skýrt þá er það ekki rétt. Ég hef sagt mjög skýrt frá því að sá leki sem varð sé mjög óheppilegur og að mér finnist að það þurfi að leiða hann til lykta, því að undir er ekki bara að einhver skýrsla sem átti hvort eð er að vera opinber sé gerð opinber sólarhring fyrr, undir liggur að skýrsla, sem átti t.d. ekki að kynna fyrr en eftir lokun markaða, er gerð opinber fyrr án þess að vita hvaða áhrif það myndi hafa. Í stóra samhengi hlutanna liggur hér undir að það verður að vera hægt að treysta Alþingi, löggjafarvaldi þjóðarinnar, fyrir trúnaðargögnum. Skárra væri það nú. Það er það sem er undir og mér þykir mjög skrýtið að hv. Píratar geri svona lítið úr þessum málflutningi.