Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Frestun á skriflegum svörum.

[11:28]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegt að fylgjast með þessu leikriti. Sjálfstæðismenn koma hingað í salinn, hv. varaþingmenn, og gera því skóna að þingmenn úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi lekið trúnaðargögnum. Þegar það er hálfpartinn dylgjað um það á móti að kannski hafi einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins lekið trúnaðargagni þá er það allt í einu voðalegur glæpur og fólk er svoleiðis yfir sig hneykslað á því. Vegna þeirra orða ríkisendurskoðanda sem hér er vitnað til þá vil ég bara hvetja hæstv. forseta Alþingis og jafnvel formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í heild til að eiga fund með ríkisendurskoðanda og reyna að fá fram upplýsingar frá honum um það hvað hann hefur fyrir sér í því að það sé einhver þingmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hafi lekið þessu gagni. Var það þá kannski líka þingmaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem lak skýrsludrögum sem enginn þingmaður, nema þrír þingmenn í ráðherranefnd um efnahagsmál, hafði aðgang að?