Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

vísitala neysluverðs.

20. mál
[16:13]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Neal Trust. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir það frumvarp sem hér er lagt fram og öðrum sem hafa tjáð sig um málið. Við erum að ræða hér sennilega eina stærstu áskorun okkar sem hér störfum og tala um ákveðið þjóðarmein. Þegar Göngu-Hrólfur skundaði um Frakkland þvert og endilangt í krafti yfirburða sinna, líkamlegra væntanlega og að einhverju leyti andlegra, tók það sem honum sýndist hverju sinni, þá var vegur norrænna manna og víkinga á þeim slóðum þannig að ef þeir hefðu haft vit á því að giftast bara innbyrðis í stað þess að taka sér franskar konur þá hefði Frakkland sennilega endað sem einhvers konar Norðurland með norrænni tungu. Þarna eru örnefni íslensk enn til staðar, orðið Gunnatóft og fleiri hljómprúð orð.

Hvers vegna er ég að blanda Göngu-Hrólfi, Rollo, inn í þessa umræðu? Það er vegna þess að Frakkar, eins og við þekkjum þá í dag, hafa ávallt verið mjög tengdir við það sem raunverulega er að gerast í samfélaginu og gripið til viðeigandi aðgerða, með leyfi forseta, „taking it to the street“, efnt til mótmæla, lokað götum og látið í sér heyra, sem er sjaldgæft á Íslandi. Við kynntumst því eftir hrunið. Við kynntumst því, eða þeir sem þá voru uppi kynntust því, á Austurvelli þegar umræðan og deilurnar um inngöngu í NATO voru. Þá var gripið hér til aðgerða að hætti Frakka. En ég er að nefna þetta í því samhengi að ég starfaði sem ungur háskólanemi á Dagblaðinu undir Jónasi Kristjánssyni sáluga, ritstjóra. Hann hélt því fram að Íslendingar væru hrjáðir og þjáðir af því sem hann kallaði þrælslund og gæti sú þrælslund hafa áunnist af þeirri undirgefni við norræna kónga á miðöldum eftir að við glutruðum sjálfstæðinu í hendur Noregskonungs og síðar yfir til Dana. Við höfum sumsé ekki spornað nægilega við yfirráðum yfirstéttarmanna á Íslandi, þeirra sem fara með völdin og eiga peningana.

Þetta snýst um það sem fór hér gjörsamlega úr böndunum í kringum 1980 og þar upp úr, 1983, þegar við vorum komin í 130% verðbólgu á Íslandi á þriggja mánaða bas, 120% á ársbas, og sparifé blásaklauss fólks sem ekki vissi eða kunni betur brann upp. Þá var gripið til tímabundinnar ráðstöfunar sem kallaðist verðtrygging. Hún átti bara að vera tímabundin og náði bæði til sparifjár og launa. Síðan létu þrælarnir klippa sig burt úr þeirri jafnvægisreglu eða því jafnvægismódeli og hafa horft á launin gliðna en lánin fitna og fitna og stækka. Hámarki galskaparins var auðvitað náð í október 2008 þegar allt fór til fjandans og fólk missti heimili sín, eins og hefur komið fram hér, tugþúsundir misstu þakið yfir höfuðið og sitja enn á leigumarkaði vegna þess að það verður snúnara og snúnara og erfiðara og erfiðara að mæta ofkröfum lánastofnana, bankanna, um það hvað maður þarf að vera fullkominn og gjörsamlega flekklaus til að geta fengið lán fyrir náð og miskunn Creditinfo. Þjóðarmeinið er sumsé þetta, að okkur gengur allt að sólu nema að ná tökum á gjaldmiðlinum, á fjárhagskerfinu með öllum sínum vaxtavöxtum, vaxtarverkjum, verðbólgum og meinsemdum sem síðan bitna mest á þeim sem ekki eiga fjármagnið heldur þurfa að fá það láni með þeim ofurkostum og afarkostum sem hér tíðkast og þrælslundin býður okkur bara að bíta á jaxlinn.

Við þessar aðstæður sem nú eru í kjölfar heimsfaraldurs og stríðs, sem vonandi verður ekki skilgreint í sögubókunum sem þriðja heimsstyrjöldin þó að margir óttist það, þá erum við með þessar hræðilegu kvaðir á þeim sem hafa í góðri trú tekið lán á lágum vöxtum og eru allt í einu komin upp við vegg og geta ekki borgað af lánunum. Þetta minnir óþægilega á það sem var hér fyrir ekki svo löngu síðan, 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012, og sumir eru ekki enn búnir að bíta úr nálinni með það. Auðvitað væri einfaldast að klippa hér út húsnæðisliðinn úr vísitölunni, lækka þjáningarnar, það væri skammtímalausnin en hún er hægari sögð en gerð vegna þess að drottnararnir sem eiga fjármagnið eru með ávöxtunarkröfur á lánastofnanir. Lífeyrissjóðirnir eru með ávöxtunarkröfu upp á 3,5% og bankarnir eitthvað miklu meira, hygg ég vera, vegna þess að hér er öllu stýrt af þeim sem eiga fjármagnið. „Cash is king“, með leyfi forseta, svo ég sletti nú ekki meira svona daginn eftir dag íslenskunnar. Lausnin sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir boðar væri auðvitað mjög hagfelld ef þetta snerist bara um að taka hér upp í stað örmyntarinnar krónunnar evruna og vera studd dyggilega af Evrópubankanum. En þá biðu okkar nú heldur betur verkefnin í nefndunum sem fara yfir tilskipanir Evrópusambandsins sem eru sirka 650 í dag. Þær yrðu 2.100 ef við gengjum inn í hið helga musteri Evrópusambandsins. (IngS: Brennandi hús.) Ja, það eru alla vega aðstæður í Evrópu sem er ekkert öfundsverðar og ég er ekki viss um að það að stíga þar inn undir myndi koma okkur undan öllum þeim vandræðum sem myndu fylgja.

Ég held hins vegar að verkefni okkar í þessu stóra samhengi væri að ná samstöðu um skammtímalausnina sem myndi létta á þessum spennustigum öllum sem hafa magnast upp hér bara á örfáum mánuðum og auðvitað er búinn að vera erfiður tími í gegnum alheimsfaraldur og allt það. En það líður að jólum og við erum að reyna að grenja út hérna 60.000 kall handa þeim sem ekkert eiga og minnst hafa milli handa. Það er ekki alveg fyrirséð hvernig það endar. Ég trúi að sú hugmynd sem formaður Flokks fólksins viðraði hér fyrir tveimur vikum fái að verða að veruleika. Það er skammtímalausn líka. Það er lækning sem dugar rétt fram að mánaðamótum desember/janúar og varla það. Við þurfum að koma okkur saman um það, þessi upplýsta nútímaþjóð með allt sem við höfum með okkur, með hvaða hætti við getum skorið okkur út úr þessari snöru sem fjármálin eru, hvernig við getum skorið okkur út úr því að börnin okkar þurfi að borga hæstu vexti í heimi fyrir það eitt að ná þaki yfir höfuð, vera í skuldafjötrum, átthagafjötrum um aldur og ævi fyrir það eitt að hírast einhvers staðar í kjallaraholum. Hvers vegna í dauðanum erum við búin að láta þetta viðgangast hér síðan guð má vita hvenær, á áttunda áratugnum, og erum enn þá að jarma og kvarta og kveina undan sama hlutnum? Það er örlítil prósenta Íslendinga sem á þetta fjármagn og stýrir þessu fjármagni. Við getum ekki látið það verða okkur að fótakefli endalaust í lífinu, valda þeirri streitu, valda því viðvarandi þrasi og þjarki og leiðindum sem einkenna þjóðmálaumræðuna ár eftir ár og þingumræðuna þar með.

Einu sinni var miðað við gullfót. Það var eitthvert efni sem allir vildu eignast og bera um háls sér og í hringum og allt þetta. Gullfóturinn var viðmiðið í Danmörku. Við studdumst við hann hér eitthvað fram eftir síðustu öld. Nú eigum við grænfót sem er vissulega eftirsóttur og verðmætur, grænn orkufótur. Ef við horfum á altaristöflur kirknanna þá sjáum við gula áru í kringum höfuðið á Jesú Kristi sem speglar andlega uppljómun hans. Við eigum andlega uppljómaða Íslendinga í tugavís. Við eigum og erum að virkja manninn, ekki bara fallvötnin og jarðvarmann. En ef við tölum nú um 20% af útflutningstekjum okkar sem eru af hugverkum, með því að virkja mannshugann, getum við kallað það gulfót og haft þjóðarsauðinn okkar með einum grænfæti og einum gulfæti og svo einum roðfæti. Getum við vinsamlegast sameinast um umræðu sem leiðir okkur að farsælli mynt sem dugar hversu bundin sem hún þarf að vera við Landsvirkjun eða útveginn eða þjóðarauðinn okkar eða hugsanlega aðrar myntir? Getum við komið okkur út úr þessum ógöngum, út úr þessum bólgum og meinsemdum sem eru að drepa fólk hér?

Við í Flokki fólksins erum einhuga um að skera húsnæðisliðinn. Við erum ekki að naga hurðarkarmana, við erum ekki að gæða okkur á eldavélunum. Þetta á ekki að vera inni og allra síst núna þegar ástandið er eins og það er. Þar er bent á að hér hafa lán hækkað um einhverja tugi þúsunda. Það er hjá venjulegu fólki sem á ekki húsnæði sitt, það eru sirka 100.000 Íslendingar, komið út fyrir allt sem heitir eðlilegt. Streitan sem fylgir slíku veldur vanheilsu, hún veldur svefnleysi, hún veldur vanheilsu og tjóni á einstaklingum og fjölskyldum og fyrirtækjum. Tökum okkur saman, hættum að þjarka um tittlingaskítinn og smáatriðin og gloppurnar og ófullkomleikann. Einbeitum kröftum okkar að því að komast í skjól frá þessum ósköpum, komum okkur inn í hagkerfi og myntkerfi sem er samkeppnishæft, sem lætur ekki okurbúllurnar drepa og draga úr okkur allan mátt. Notum skammtímalækningar þar til við komum okkur í heila höfn.