Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvörðun nr. 396/2021 um breytingu á XX. viðauka við EES- samninginn o.fl.

475. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti okkar í utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á nokkrum viðaukum. Við höfum fengið á fund nefndarinnar Ingólf Friðriksson, Sigríði Eysteinsdóttur, frá utanríkisráðuneyti, Gauta Daðason og Jónas Birgi Jónasson, frá innviðaráðuneyti. Með þessari tillögu er verið að leita heimildar til Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir, sem birtast m.a. í nefndarálitinu, sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Það er m.a. verið að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins um vöktun og skýrslugjöf vegna koltvísýringslosunar og eldsneytisnotkunar nýrra, þungra ökutækja og hina framseldu reglugerð framkvæmdastjórnarinnar varðandi breytingu á viðauka við reglugerð Evrópuþingsins að því er varðar gögn um ný, þung ökutæki sem aðildarríki og framleiðendur eiga að vakta og gefa skýrslu um; það var farið ágætlega yfir þetta í nefndinni. Það er verið að fella inn í samninginn ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir ný, þung ökutæki, það skiptir máli, og breytingu á reglugerð þingsins og tilskipanir ráðsins. Það er verið að innleiða þetta á þessu sviði.

Við erum síðan að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki og eru í samræmi við breytingar á reglugerð frá ESB. Síðan erum við að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins að því er varðar breytingu á reglugerð um þróun sem orðið hefur á sviði flutninga á vegum. Það er líka verið að fjalla um lágmarkskröfur um daglegan og vikulegan hámarksaksturstíma, lágmarksvinnuhlé og daglegan og vikulegan hvíldartíma og að því er varðar staðarákvörðun með aðstoð ökurita. Síðan er verið að fella inn í samninginn tilskipun um breytingu á annarri tilskipun um grunnþjálfun og reglubundna þjálfun ökumanna tiltekinna ökutækja til vöru- eða farþegaflutninga og einnig tilskipun ráðsins um ökuskírteini.

Virðulegi forseti. Við teljum þetta vera í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Við leggjum til að tillagan verði samþykkt.

Undir álitið skrifa auk mín Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar, Diljá Mist Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Friðrik Friðriksson, Logi Einarsson og Njáll Trausti Friðbertsson.