Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:42]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Við erum hér að ræða lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem afgreidd voru hér á þingi árið 2018. Með þessum lögum var innleitt nýtt þjónustuform fyrir fatlað fólk með ríkar þjónustuþarfir sem hefur síðan reynst afar mikilvægt og í raun grundvöllur þess að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi, og mætti hér jafnvel tala um mannréttindi. Notendastýrð persónuleg aðstoð, eða NPA, byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki kleift ráða hvar það býr og með hverjum það býr. Fatlað fólk stýrir því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvaða aðstoð er veitt, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana. Notendastýrð persónuleg aðstoð getur gagnast öllu fötluðu fólki en hentar þeim sérstaklega sem hafa þörf fyrir viðvarandi fjölþættan stuðning og eru reiðubúnir að stýra því sjálfir, eftir atvikum með aðstoð, hvar, hvernig og hvenær aðstoðin er veitt. En þessi þjónusta bætir auðvitað bara líf fólks þegar það hefur raunverulegt aðgengi að henni. Strax í upphafi var settur kvóti á þessi sjálfsögðu mannréttindi, kvóti á það hversu marga samninga ríkið ætlaði að fjármagna. Til einföldunar þá virkar kerfið þannig að sveitarfélögin greiða fyrir þjónustuna, notendastýrða persónulega aðstoð, en ríkið greiðir framlag sem ráðstafað er í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem tiltekinni hlutdeild af fjárhæð samninga. Sveitarfélagið greiðir 75% og ríkið 25%. En af því að ríkið er með hámark á hversu marga samninga það fjármagnar þá kemur það í veg fyrir að samningum fjölgi í samræmi við þörf.

Mig langaði að koma upp í andsvör áðan til að spyrja hæstv. ráðherra og síðar hv. þm. Guðbrand Einarsson út í það hvort þetta sé eitthvað sem við teljum eðlilegt fyrirkomulag við úthlutun annarra mannréttinda. Það er ýmis annars konar grunnþjónusta sem við sinnum einfaldlega og hún kostar það sem hún kostar. Ég hef ákveðinn skilning á þeim sjónarmiðum hæstv. ráðherra að hann geti að sjálfsögðu ekki eytt meiri peningum en fjárlög leyfa. En einhvern veginn höfum við fundið lausn á mörgum öðrum atriðum, á margs konar annars konar þjónustu sem ríkið og sveitarfélög veita án þess að það þurfi að skammta það: Jæja, nú er peningurinn sem fer í grunnskólana bara búinn. Þið verðið bara að bíða, krakkar, mínir — eða eitthvað slíkt. Nei, við vinnum ekki þannig. Það hefur, eins og hefur komið fram hér í umræðunni, verið látið reyna á það hvort sveitarfélagi beri skylda til þess að greiða fyrir samning sem ríkið fjármagnar ekki og niðurstaðan var sú að svarið væri í rauninni já. Afleiðingin er sú að hámarkið í lögunum er í raun kvóti á fjölda NPA-samninga. Sveitarfélögunum er heimilt að gera fleiri samninga en ber ekki skylda til þess.

Lögin voru upp upphaflega dregin upp þannig að nýjum samningum átti að fjölga frá ári til árs, samanber ákvæði til bráðabirgða í lögunum. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Ríkissjóður hefur vanáætlað eða öllu heldur vanfjármagnað sinn hluta af notendastýrðri persónulegri aðstoð. Fyrir vikið eru um helmingi færri NPA-samningar í gildi í dag en þeir ættu að vera samkvæmt lögum nr. 38/2018. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 er lagt til að framlög til NPA-samninga verði 720 millj. kr. Að óbreyttu felur það framlag í sér skerðingu á fjárframlagi til NPA-þjónustunnar og þess vegna fækkun á NPA-samningum á landsvísu. Í dag eru NPA-samningar rúmlega 90 talsins á landinu öllu en samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2018 ættu þeir að vera allt að 172 í lok árs 2022. Þetta er þvert á gefin fyrirheit og áætlanir stjórnvalda um verulega fjölgun NPA-samninga, þvert á þau markmið og áætlanir sem sett eru í lögum nr. 32/2018. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum 2018 kemur vilji löggjafans mjög skýrt fram. Þar segir að samningum verði fjölgað jafnt og þétt til ársins 2022 og að fjármagn verði aukið í skrefum þar til rúmlega 170 samningar verði á landinu öllu.

Staðan er sú að tugir fatlaðra einstaklinga eru á biðlista þrátt fyrir að fjöldi þeirra sé vel innan þess samningafjölda sem frumvarp til laga frá árinu 2018 lagði til. Með þessu frumvarpi er samningsheimildin fyrir næsta ár hins vegar lækkuð og svo fer það aftur upp í sömu tölu fyrir árið 2024.

Staðan er einfaldlega þessi: Núverandi ríkisstjórn stendur í vegi fyrir réttindum fatlaðs fólks sem hafa verið lögfest. Hún neitar því um þjónustuna sem Alþingi hefur sagt að það eigi tilkall til sem mannréttinda. Það er ekki í boði að setja kvóta á mannréttindi eða að skilyrða sjálfsögð mannréttindi við fjárheimildir. Eins og Martin Luther King, og síðar hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir, sagði: Að bíða með réttlætið jafngildir því að neita um réttlætið. Það að NPA-samningar hafi ekki verið fjármagnaðir, ekki einu sinni að því lágmarki sem lögin áttu að kveða á um, er ekkert nema aðför meiri hlutans, ríkisstjórnarinnar, að mannréttindum fatlaðs fólks.