153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:54]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hennar góðu ræðu, fyrir að vera trú sannfæringu sinni og berjast fyrir því sem hún telur vera óréttlæti í þessu samfélagi. Mig langaði kannski aðeins að halda áfram með það sem hv. þingmaður nefndi hér í gær varðandi hækkun á húsaleigu. Þar var m.a. verið að tiltaka breytingar á leigukjörum hjá fólki þar sem leiga var að hækka um allt að 30% á milli ára þegar verið er að gera ráð fyrir verðbólgu upp á 7%. Af þessu tilefni vil ég nefna að hv. þingmaður stóð hér uppi í pontu og ræddi þetta af mikilli alvöru. Á sama tíma fékk hæstv. fjármálaráðherra fyrirsagnirnar en ekki viðkomandi þingmaður sem var að taka á málinu. Þessir aðilar eru að hækka húsaleigu um 30%, lýsa því þó yfir að þessi meinti hagnaður þeirra hafi að stórum hluta verið vegna verðlagsbreytinga og þeir séu nauðbeygðir til að gera þetta vegna efnahagsástandsins í samfélaginu. En þetta sama efnahagsástand hvílir auðvitað líka á leigjendum en ekki bara á þeim. Mig langar að vekja athygli á því, sem hefur komið fram, að leigufélagið Bríet lækkaði húsaleigu í desember um 30% til að koma til móts við fólk. Þannig að ef húsaleiga hefur verið 300.000 þar hefðu þeir sem leigðu hjá Bríeti í desember fengið 90.000 kr. bónus. Bríet er ekkert að hækka húsaleigu samsvarandi því sem Alma er að gera. Og ég bara velti því fyrir mér hverju það sætir. (Forseti hringir.) Eru þetta einhverjar væntingar um mikinn gróða hjá þessum aðilum eða þurfa þeir að ná einhverjum ofsagróða út úr því sem þeir eru að gera?