153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:07]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla kannski að byrja á að segja við hv. þingmann, af að því ég æsti mig svolítið áðan, að það beindist ekki að henni. Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja um allar þessar fyrirætlanir. Ég var á móti sölunni og ég er á móti sölu ríkisbanka á meðan hrunið hefur ekki verið gert upp. Það er t.d. ein ástæðan. Á meðan hrunið hefur ekki verið gert upp — það er þarna inni þar sem allt sem tekið var af heimilunum liggur. Þegar réttlætið nær fram að ganga verðum við að geta nálgast þetta fé þar sem það fór, í staðinn fyrir að ríkið verði bara ábyrgt eða eitthvað þess háttar. Ég skil ekki hvernig á að gera þetta allt saman og ég ber ekkert svakalega mikið traust til þeirra aðila sem nú ætla bæði að stofna þetta nýja fyrirbæri og sjá um söluna á bankanum í áframhaldinu. Ég set rosalega stórt spurningarmerki við þetta allt. (Forseti hringir.) Eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir veit þá varaði ég við, á fundum í efnahags- og viðskiptanefnd, næstum öllu því sem kom fram við söluna.