Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir síðara andsvar. Þetta er rétt. Löggjöfinni hefur verið breytt 40 sinnum, einu og hálfu sinni á hverju einasta ári að meðaltali. Það má líta á það þannig að það sé hugsanlega til þess að elta þessa miklu framþróun og þær breytingar sem við höfum verið að taka inn. Svo er það spurningin, þegar við erum að tala um löggjöf sem hefur breyst svona oft og breyst svona mikið: Er það vegna þess að hún er að fylgja einhverri tækniþróun og slíku? Þá finnst mér ekki úr vegi að nefna lög um lífeyrissjóði því ég held að það sé búið að breyta þeim vel yfir 100 sinnum frá því að þau voru sett, 115 sinnum sennilega eða eitthvað slíkt. Ég er ekki viss um að þeirri löggjöf hafi alltaf verið breytt til batnaðar, alls ekki, en það er önnur saga. En það er til bóta að löggjöfin skuli fylgja framþróun. Það er bara til bóta að hún skuli fylgja tæknilegum breytingum þannig að við séum a.m.k. ekki aftan í fornöld hvað það varðar. En allt sem lýtur að hlutafélögum og löggjöfinni og aðkomu að hluthafafundum og öðru slíku á að vera algjörlega skýrt fyrir hluthöfunum sjálfum. Allt á að vera uppi á borðum og gagnsæið á að vera algjört, ekki neitt í felum á bak við hurð.