Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:30]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni, 13. þm. Suðvest., fyrir andsvarið. Hann talaði um að ýta á takkann. Ég ætla nú ekki að spyrja hann um það en það minnir mig á umfjöllun um 7. gr. í greinargerðinni, svo ég vitni í þær athugasemdir, með leyfi forseta: „Hér er um að ræða skil á rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggð á skattframtali félagsins í gegnum vef Skattsins með „hnappnum“.“ Hv. þingmaður var ekki að tala um hann, held ég, hann var að tala um takkann. Mig langar aðeins að taka þetta áfram þar sem hann hefur góða þekkingu á þessum málum. Í stjórnarsáttmálanum er heill kafli sem heitir: „Við ætlum að nýta tæknibreytingar til að skapa aukin lífsgæði“. Þar er talað um að þjóðir heims standi frammi fyrir tækifærum, einnig nýjum áskorunum sem fylgja tækniþróuninni, að tæknibreytingar og hagnýting gervigreindar þurfi að vera í allra þágu og byggjast á grunngildum um mannréttindi, lýðræði og jöfnuð og mikilvægt sé að efla þekkingu og tryggja jöfn tækifæri. Þarna ætli Ísland að vera fremst í flokki. Ég get ekki séð að með því að fyrirtæki sendi ársreikninga og samstæðureikninga á pdf-formi séum við að skapa aukin lífsgæði með þessari tæknibreytingu nema kannski það að fólkið hjá ársreikningaskrá þarf ekki að skanna inn þessi skjöl. Ég get ekki séð að við séum að nota tæknibreytingarnar til að skapa aukin lífsgæði af því að við erum ekki að fá upplýsingarnar úr þessum gögnum. Mér finnst ansi einfalt að gera þetta svona. Þetta ber vitni um að annaðhvort er ríkisstjórnin ekki með á nótunum í upplýsingabyltingunni eða að hún hreinlega áttar sig ekki á tækifærinu sem felst í því að hafa rafræn skil á ársreikningum og samstæðureikningum til upplýsinga (Forseti hringir.) fyrir samfélagið, til upplýsinga fyrir stjórnvöld, t.d. við gerð fjárlaga og fjárhagsáætlunar. Við erum ekki að gera neitt með þessu. Af hverju ekki?