Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti heldur áfram og gengur bara lengra og lengra í því að reyna að snúa út úr og villa um fyrir okkur. Nú er aftur verið að benda á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar hv. formaður nefndarinnar hefur þegar komið hérna upp og sagt að þetta mál sé ekkert í meðferð hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hafi ekkert með hana að gera og það þýði ekkert að vera að benda þangað. Það er bent á að það sé ekki heimilt að afhenda þetta vegna upplýsingalaga, en það er búið að benda á að það standist ekki. Við viljum fá rök fyrir því en það er ekki hægt að biðja um rök fyrir því og er bent á lög um þingsköp Alþingis eins og það sé eitthvað skýrt þar að það megi ekki. Virðulegur forseti nefndi að þetta teldist ekki til stjórnsýslu þingsins. Ég ætla að fá að lesa upp úr þingskapalögum um það hvernig stjórnsýsla þingsins er skilgreind, með leyfi forseta:

„Með stjórnsýslu Alþingis er átt við þá starfsemi sem fram fer á vegum Alþingis og forseti Alþingis hefur æðsta vald í, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um þingsköp Alþingis, eða forsætisnefnd er ætlað að fjalla um samkvæmt þingsköpum Alþingis. Til stjórnsýslu Alþingis telst enn fremur starfsemi sem forseta Alþingis eða forsætisnefnd er falin samkvæmt fyrirmælum í öðrum lögum eða samkvæmt ályktun Alþingis.“

Ég veit ekki betur en að virðulegur forseti hafi ítrekað nefnt að þetta mál sé í vinnslu hjá forsætisnefnd. (Forseti hringir.) Hvert eigum við að snúa okkur þegar, líkt og var nefnt áðan, við fáum ekki einu sinni að spyrja. Við fáum ekki heimild til að spyrja (Forseti hringir.) af hverju við megum ekki spyrja. (Forseti hringir.) Þetta er ótrúlegt.