Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi náð því á minni löngu ævi að mér bæri að fara að lögum. Það er kannski sá lærdómur sem ég hef lært á minni lífsleið og ég geri ráð fyrir að forseti Alþingis þurfi líka að fara að lögum, eða bara þingmenn almennt í sínum störfum og svo almennt og yfirleitt úti í samfélaginu. Okkur ber að fara að lögum. Ég er búinn að hlusta á hvern lögfræðinginn á fætur öðrum stíga hér upp í pontu og það er enginn á sömu skoðun. Þá spyr maður auðvitað: Hvað er rétt þegar lögfræðingar deila? Ég hef aldrei heyrt lögfræðinga vera sammála. Þeir eru yfirleitt alltaf ósammála og fá greitt fyrir það. En við lifum í samfélagi sem við viljum að sé opið og gagnsætt og þess vegna er eðlilegt að aðgangur að upplýsingum sé fyrir hendi en ekki falinn.