153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[15:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Einmitt vegna þessarar skýrslu þá liggja fyrir forsætisnefnd tvö lögfræðiálit, annars vegar frá þinginu sem fjallar um það hvort þessi skýrsla sé vinnugagn eða ekki og niðurstaða þess lögfræðiálits er að þetta falli undir þetta vinnuskjalsákvæði. Það hefur verið ítarlega gagnrýnt á mörgum forsendum en kemur í rauninni samt ekki í veg fyrir að slík gögn séu birt. Hitt lögfræðiálitið er frá óháðum lögfræðiaðila og fjallar um það hvort í skýrslunni séu einhver persónugreinanleg atriði sem verður að dekkja eða ekki. Niðurstaðan þar er nei, en það var hitt atriðið sem var nefnt sem vörn fyrir því að birta ekki þessa skýrslu, af því að það voru einhverjar persónuupplýsingar eða eitthvað svoleiðis í skýrslunni. Niðurstaðan er hins vegar skýr; svo er ekki. (Forseti hringir.) Þannig að við erum á þeim stað með þessa skýrslu að það er (Forseti hringir.) ekki nauðsyn að fela skýrsluna og það er ekkert persónugreinanlegt í henni, ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt sé að birta þessi gögn (Forseti hringir.) heldur einungis ákvörðun forseta að gera það ekki, og ég verð að gera athugasemd við það.