Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

lögfræðiálit um greingargerð vegna Lindarhvols, svör við fyrirspurnum.

[15:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ekki um þetta mál að þessu sinni heldur kem ég hér til að biðja forseta alls Alþingis um aðstoð. Ég lagði fyrirspurn fyrir hæstv. forsætisráðherra um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta á síðasta ári, vegna þess að við erum í smá vanda, það er búið að skipta upp Stjórnarráðinu og þess vegna beindi ég fyrirspurninni eingöngu til forsætisráðherra svo hún gæti safnað saman upplýsingum frá öllum ráðuneytum varðandi framkomu ráðherra og ráðuneytisstjóra í garð starfsmanna Stjórnarráðsins. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því til að henni væri kunnugt um vanvirðandi hegðun en þetta væru óformleg samskipti, hún gæti því ekki upplýst um það sem fram hefur komið en hún hefði átt viðtöl vegna þess. Í gær barst svar frá hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra við sambærilegri fyrirspurn, af því að ég neyddist til að dreifa þessari fyrirspurn á alla ráðherra og set sérstaklega inn beiðni um að svör óskist sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytis í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra, þ.e. (Forseti hringir.) hvort vanvirðandi hegðun ráðherra eða ráðuneytisstjóra væri til staðar. Þá kemur ráðherra og segist ekki geta svarað þessu nema bara fyrir síðustu 12 mánuði af því að ráðuneytið hafi ekki verið til.

Nú verð ég bara að fá hæstv. forseta til að liðsinna við þetta. (Forseti hringir.) Þetta eru eftirlitsskyldur okkar þingmanna og ég er að biðja um svör að gefnu tilefni. (Forseti hringir.) Það skiptir máli að við stöndum með fólki sem starfar í Stjórnarráðinu. Við þurfum að fá þessi svör.