153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

kjör hjúkrunarfræðinga.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmanni ætti að vera kunnugt um er sérstök vinna í gangi til að fara í virðismat á störfum og bera saman almenna markaðinn og hinn opinbera. En ég ætla að vekja athygli á því að við höfum hvergi annars staðar fjölgað jafn mikið í stöðugildum hjá hinu opinbera eins og á við í heilbrigðismálum og síðan hjá menntastofnunum en þar höfum við fjölgað um tæplega 1.400 starfsmenn frá árinu 2019. Nú er svo komið að 25% af öllum stöðugildum ríkisins eru hjá Landspítalanum, 25% af öllum stöðugildum. En hv. þingmaður tók svona smásnúning á þessari fyrirspurn sinni í seinna skiptið sem hann kom upp. Í fyrra skiptið vildi hann tala um hjúkrunarfræðinga. En þegar ég benti á að það væri erfitt að taka einstaka hópa út undan þá sagðist hann vera að tala fyrir hönd allra hópanna, að þeir ættu allir skilið að fá miklu hærri laun. Ég er einfaldlega kominn hingað til að benda á að (Forseti hringir.) svigrúmið er takmarkað. Ef við ætlum að hækka laun allra þannig að allir séu orðnir sáttir þá þýðir nú lítið að vera að lýsa yfir einhverjum áhyggjum af verðbólgu.