153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

orð fjármála- og efnahagsráðherra í fjölmiðlum.

[15:45]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að hlusta hér á hæstv. fjármálaráðherra, manninn sem lagði fram fjárlög með 90 milljarða halla sem var svo keyrður upp í 120 milljarða, manninn sem felldi allar afkomubætandi tillögur stjórnarandstöðunnar á Alþingi, benda svo á stjórnarandstöðuna og segja að óráðsían í ríkisfjármálum liggi þar. Ábyrgðarflóttinn er ótrúlegur.

En, virðulegi forseti, ég kem hingað upp undir þessum lið vegna þess að ég las frétt á visir.is í gær þar sem er haft eftir hæstv. ráðherra að ríkisstofnanir séu að fara jafnvel tugi milljarða fram úr fjárlögum — jafnvel tugi milljarða fram úr fjárlögum. Það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo að hér sé hann að tala um einstakar ríkisstofnanir. Nú er fjárlaganefnd að fara yfir framkvæmd fjárlaga þessa árs með fagráðuneytum og skoða ýmsa áhættuþætti og ég get nú bara staðfest að það er ekkert sem hefur komið fram þar sem rennir neinum stoðum undir þessar upphrópanir ráðherra. (Forseti hringir.)

En ef það er í alvörunni þannig, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að einhver ríkisstofnun sé að fara tugi milljarða fram úr fjárlögum (Forseti hringir.) þá verður auðvitað hæstv. fjármálaráðherra að gera Alþingi grein fyrir því. Ég vil biðja hæstv. forseta um að vera þá sveigjanlegur með dagskrána upp á það að hæstv. fjármálaráðherra geti gefið yfirlýsingu og upplýst Alþingi (Forseti hringir.) ef ríkisstofnanir eru að fara tugi milljarða fram úr fjárlögum á hans vakt.