Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

almannatryggingar.

78. mál
[17:45]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni og meðflutningsfólki hans fyrir að setja þetta brýna mál á dagskrá. Nú erum við sko að tala saman. Þetta er eitt það brýnasta sem þarf að breyta til að vinna á fátækt lífeyristaka sem sífellt verða undir þegar ákveðið er hvernig skammtað á til þeirra úr krepptum hnefa ríkisstjórnarinnar. Ég vil leyfa mér að vitna til nefndarálits minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022, orð sem eiga einstaklega vel við nú þó að tölurnar hafi breyst örlítið núna, en ekki mikið, auðvitað ekki, með leyfi forseta:

„Samkvæmt mælaborði Tryggingastofnunar þurfa um 14.000 lífeyrisþegar að draga fram lífið á minna en 300.000 kr. á mánuði fyrir skatt. 80% öryrkja segjast eiga erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýlegri skýrslu Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins og mun hærra hlutfall eldri borgara á í erfiðleikum með að ná endum saman á Íslandi heldur en á hinum Norðurlöndunum samkvæmt gögnum Eurostat.“

Miðgildi lífeyrissjóðstekna hjá eldri konum er um 150.000 kr. á mánuði. Af slíkum lífeyrissparnaði situr aðeins þriðjungur eftir sem auknar ráðstöfunartekjur en 100.000 kr. renna til ríkisins vegna skatta og skerðinga. Jaðarskattbyrðin er þannig 67%. Eldra fólk sem getur ekki unnið lengur situr fast í þessu skerðingarkerfi sem er gjörólíkt því sem þekkist í velferðarríkjunum sem við erum vön að bera okkur saman við. Eins og rakið er í skýrslu Stefáns Ólafssonar og Stefáns Andra Stefánssonar um kjör lífeyrisþega sem birtist á síðasta ári finnst vart það land í heiminum þar sem tekjutengdar skerðingar eru eins miklar og á Íslandi. Þá er ójöfnuður meðal eldri borgara meiri á Íslandi en meðal almennings almennt, ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum eins og Noregi, Danmörku og Finnlandi þar sem þessu er öfugt farið. Nærtækasta leiðin til að sporna gegn lágtekjuvanda eldra fólks og öryrkja er að hækka óskertan lífeyri Tryggingastofnunar. Auk þess er brýnt að draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu og lækka þannig óbeina jaðarskatta þessa hóps en eins og Stefán Ólafsson og Stefán Andri Stefánsson benda á í skýrslu sinni. Kjör lífeyrisþega – samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða í mótun tekna, eru skerðingar með tekjutengingu meiri í íslenska almannatryggingakerfinu heldur en í öðrum OECD-löndum.

Fyrir ári eða 18. febrúar 2022 skrifaði LEB, Landssamband eldri borgara, umsögn um þetta frumvarp sem hv. þm. Inga Sæland mælir fyrir ásamt sínu fólki. Leyfi ég mér að vitna í þessa umsögn LEB, með leyfi forseta:

„Íslendingar hafi búið við mikla verðbólgu síðustu misseri og útlit fyrir að svo verði áfram út þetta ár. Verðbólgan hefur leikið ellilífeyrisþega illa m.a. vegna þess að lífeyri frá almannatryggingum hefur ekki haldið verðgildi sínu og sparifé hefur verið með neikvæðri ávöxtun. Brýn þörf er að bregðast við kaupmáttarrýrnun ellilífeyrisþega og hækkun á frítekjumarki vegna lífeyristekna myndi bæti fjárhagsstöðu allra hratt og vel.

Langstærsti hluti ellilífeyrisþega er með megin hluta tekna sinna frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum. Miklar tekjutengingar sem eru í núverandi kerfi koma í vega fyrir að ellilífeyrisþegi geti bætt fjárhagslega afkomu sína. Jaðarskattar eru á bilinu 70–80% sem halda mörgum í fátæktargildru. Það er afar brýnt að samstaða náist um að um að draga verulega úr skerðingum vegna tekna frá lífeyrissjóðum.

Eðlilegt er að horfa til þess við útreikning á kostnaði vegna hækkun frítekjumarks að 70% þeirra sem nytu breytingarinnar munu greiða 37,95% í staðgreiðslu. Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til þess að stór hluti tekna ellilífeyrisþega fer í daglega neyslu og af henni eru greiddir neysluskattar sem renna að mestu til ríkisins. Því má ætla að nettó kostnaður við að hækka frítekjumark vegna lífeyristekna í 1.200.00 kr. sé nær 10 milljörðum en 16 milljörðum eins og haldið hefur verið fram af þeim sem vilja ekki stíga þetta mikilvæga skref.“

Þetta tvennt þarf helst að haldast í hendur; hækkun ellilífeyris og hækkun almenna frítekjumarksins sem aðallega snýr að lífeyrissjóðstekjum eldra fólks. Það kemur stórum hluta lífeyristaka til góða og helst þeirra sem búa við kröpp kjör. Kemur því fólki til góða sem hefur ekki tíma til að bíða lengur eftir réttlætinu.