Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

Sundabraut og samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

768. mál
[18:11]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka jafnframt Sundabrautina og tengd verkefni upp í þinginu. Eins og menn þekkja byggði samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins á viljayfirlýsingu ríkis og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 21. september 2018 og skýrslu verkefnishóps um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033 sem kom út í nóvember 2018, þannig að þetta er búið að hafa ákveðinn aðdraganda. Í samgöngusáttmálanum sjálfum kemur fram að Sæbrautarstokkur, þ.e. Reykjanesbraut–Sæbraut–Holtavegur–Stekkjarbakki, sé ein forsenda hugmynda um Sundabraut og upphaflega framkvæmdin sem gert hafði verið ráð fyrir á Sæbraut og Reykjanesbraut var skilgreind í skýrslu verkefnahópsins frá 2018, skýrslunni sem ég var að vísa til, sem breikkun á Reykjanesbraut á þessum kafla og endurgerð gatnamóta við Súðavog og Kleppsmýrarveg allt að fyrirhugaðri tengingu við Sundabraut, sem sagt allt önnur hugmynd í raun og veru að stærðargráðu heldur en Sæbrautarstokkur. Markmið framkvæmdarinnar var að bæta samgöngur í og við lykilpunkta í samgöngukerfinu og bæta flæði vöruflutninga að og frá Sundahöfn en það er ein lykilforsenda Sundabrautarverkefnisins.

Það er unnið að undirbúningi framkvæmda vegna Sæbrautarstokks sem hefur, eins og ég er að lýsa, stækkað í hugmyndunum. Frumdrög að útfærslu mannvirkisins lágu fyrir um mitt ár 2021. Í framhaldinu hófst vinna við mat á umhverfisáhrifum en framkvæmd Sæbrautarstokks er matsskyld framkvæmd. Vinnan við forhönnun hófst um mitt ár 2022 og er áætlað að vinnu við forhönnun ljúki á þessu ári og í framhaldi verði síðan unnið að verkhönnun og loks framkvæmd. Það er áætlað að framkvæmdir verði á árunum 2025–2027 en sú tímasetning er þó háð framgangi undirbúningsvinnu við mat á umhverfisáhrifum sem og skipulagsvinnu hjá Reykjavíkurborg en endurskoða þarf skipulagsáætlanir áður en framkvæmdaleyfi fæst fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum. Sundabrautin sjálf er síðan fyrirhugað að geti farið í útboð á árinu 2024 og það útboðsferli tekur væntanlega tvö ár, framkvæmdir 2026 og framkvæmdum lokið 2031 og ég vona sannarlega að hv. þingmaður verði lifandi þá.

Spurt er líka um greiða tengingu Sundabrautar við stofnbrautir, hvernig hún verði tryggð. Það er gert ráð fyrir að Sundabraut tengist við Sæbraut og sú vinna er í gangi með umferðargreiningum og matsáætlun vegna umhverfismats framkvæmda. Með því móti verður til meginstofnvegur norður og suður á höfuðborgarsvæðinu sem tengist Reykjanesbraut um Sundabraut og upp á Kjalarnes með greiðri umferð og mislægum gatnamótum. Það er í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og þá stefnumörkun sem mótuð var í skýrslu áðurnefnds verkefnishóps SSH og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 2018, um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu allt til 2033, sem aftur lá til grundvallar samgöngusáttmálanum. Tengingar Sæbrautar og Sundabrautar við Sundahöfn og nærliggjandi athafnasvæði eru mikilvægar fyrir vöruflutninga og þarf að taka tillit til þeirra við útfærslur gatnamóta. Ríkið og Reykjavíkurborg hafa jafnframt gert samkomulag um staðarval vegna húsnæðis löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, stundum kallað björgunarmiðstöð eða eitthvað slíkt, og er gert ráð fyrir að það verði við Kleppsgarða. Staðsetning löggæslu- og viðbragðsaðila við Sæbraut undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að taka tillit til greiðra tenginga Sundabrautar við Sæbraut. Í samgöngusáttmálanum er jafnframt gert ráð fyrir því að Reykjanesbraut allt frá Álftanesvegi að Kaldárselsvegi verði í frjálsu flæði ásamt því að gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verði mislæg. Með framangreindum framkvæmdum verða Reykjanesbraut, Sæbraut og Sundabraut að meginstofnvegi sem tengir Reykjanes við Vesturland með greiðri umferð í frjálsu flæði.