Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[14:44]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Líkt og ég sagði í fyrra andsvari, ef við tölum um þetta fjárhagslega, peningalega, þá sparast starf eins forstöðumanns. En ég held að það væri algert glapræði ef ég væri að tilkynna það hér að það yrði einhver annar sparnaður af þessari sameiningu miðað við þá stöðu sem við erum með í málaflokknum í dag. Ég held að hv. þingmaður sjái það með mér að miðað við þá gríðarlegu fjölgun sem hefur orðið á umsækjendum um alþjóðlega vernd hér á landi þá ráðum við ekki við hana með færra fólki heldur en við höfum í dag og það væri þá frekar að það þyrfti tímabundið að bæta þar í. En almennt séð tel ég að þessi sameining muni fyrst og fremst auka skilvirkni og líka til lengri tíma litið. Þegar búið er að sameina stofnanirnar og keyra saman þá verkferla og verkefni sem stofnanirnar hafa hvor um sig í dag þá verður til meiri skilvirkni til lengri tíma litið og þá getum við kannski farið að tala um að það gæti sparað okkur ekki bara fjármuni heldur líka tíma og sparað þeim ómældan tíma sem í dag eru að sækja þjónustu til tveggja stofnana.