Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held einmitt að það sem hv. þingmaður kom inn á hér varðandi stefnuna sýni að við eigum bara mjög margt sameiginlegt þar. Það er ekki eins og hælisleitendur séu baggi á kerfinu. En ég spyr aftur hv. þingmann: Hvað er það sem hann óttast að standa stangist á við stjórnarskrá Íslands? Nú liggur fyrir greinargerð frá ráðuneytinu hvað þetta varðar. Er það það að við förum fram á að fá vottorð frá heilbrigðisyfirvöldum? Getur það mögulega stangast á við stjórnarskrá? Hér er skýrt tekið fram að það er ekki verið að fara fram á þvingaða heilbrigðisskoðun. Aldrei. Er óeðlilegt að krefjast þess að ef viðkomandi óskar eftir að umsókn hans sé tekin fyrir aftur að það séu auknar líkur á því að niðurstaðan verði einhver önnur? Eða telur hv. þingmaður að það séu einhvern veginn stjórnarskrárvarin mannréttindi að fólk sem er búið að fara í gegnum umsóknarferlið á tveimur stjórnsýslustigum og fær synjun eigi að yfirgefa landið innan 30 daga með öllum þeim fyrirvörum sem þó eru settir í það frumvarp? Finnst hv. þingmanni það bara eðlilegt (Forseti hringir.) að fólk sem hefur ekki rétt til að dvelja hér á þessu landi dvelji hér langtímum saman á kostnað íslenskra skattgreiðenda?