Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:54]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fólk er áhugasamt um stefnu Viðreisnar. Við viljum taka mannúðlega á móti fólki. Við viljum ekkert opna öll landamæri, enda stendur það ekki til og það er enginn að tala fyrir því. Við viljum hafa virka landamæragæslu og lögreglan á landamærunum á auðvitað að sigta út glæpamenn þar sem þá er að finna. En við eigum ekki að gefa okkur það í umræðu hér þegar við erum að ræða grundvallarréttindi fólks sem er að flýja neyð að þar hljóti annar hver maður að vera glæpamaður, eins og stundum er gert. Við eigum heldur ekki að gefa okkur það að þær 7 milljónir sem eru á flótta frá Venesúela sé allt fólk sem er að flýja efnahagsástand. Staðreyndir innan úr landinu segja ofureinfaldlega aðra sögu — 7 milljónir frá einu ríki á flótta, þetta eru sambærilegar tölur við það sem við sjáum frá Úkraínu, Sýrlandi, Afganistan og slíkum löndum. Þannig að ég er bara einfaldlega að kalla eftir því að menn tali um hælisleitendur af meiri virðingu, (Forseti hringir.) gefi sér það ekki að þetta fólk sem hingað leitar sé einhver baggi á samfélaginu (Forseti hringir.) og að við göngum ekki út frá því í allri landamæragæslu, ef það er það sem hv. þingmaður er að ýja að, að annar hver maður hljóti að vera með eitthvað annarlegt í huga við komuna til landsins.