Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Í gær urðum við vitni að einhverju aumasta yfirklóri Íslandssögunnar þegar tveir ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mættu hér í pontu og létu eins og ekkert væri, létu eins og ekkert væri þegar annar þeirra hafði brotið á rétti Alþingis til upplýsinga. Mættu þeir báðir, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra, gráir fyrir járnum og sögðu að þetta væri nú ekkert tiltökumál, þingið gæti bara étið það sem úti frýs og ráðherrann gert það sem honum sýnist. Það er alveg ljóst að það er engin auðmýkt á þeim bænum, það er einskis að vænta frá Sjálfstæðisflokknum í að standa með Alþingi í þessum slag fyrir þingræðinu. Þess vegna er kominn tími til þess að Alþingi sjálft grípi í taumana og lýsi vantrausti á dómsmálaráðherra vegna þess að hann braut lög gagnvart Alþingi. Svo einfalt er það. Ráðherra sem ekki virðir stöðu sína gagnvart Alþingi Íslendinga á ekki að gegna embætti í nafni þess Alþingis. Meiri hluti Alþingis veitir honum skjól í dag. Mun hann gera það þegar greidd verða atkvæði um tillöguna? Hvort mun meiri hlutinn standa með Alþingi eða Jóni Gunnarssyni?