Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:23]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að leyfa mér að leggja til að ráðist verði í hugmyndasamkeppni fyrir nafnið á stofnuninni. Ég ætla að vísa því á bug að hér sé um útúrsnúning að ræða og ég held að hv. þingmaður viti hvað ég er að tala um. Það er ekki eingöngu svo að búið sé að fara í einhverja skoðun á því hvort það eigi að gera þetta eða ekki. Það hafa verið teknar ákvarðanir í trausti þess að málið verði samþykkt á Alþingi fyrir 1. apríl. Þar koma inn starfsmannamál og aðrir þættir og því er alls enginn útúrsnúningur í þessu. Þetta er raunveruleg athugasemd og raunverulegar áhyggjur sem hafa komið fram en skoðast náttúrlega líka almennt í því ljósi hvernig ríkisstjórnin hefur unnið, sem veður svolítið áfram að Alþingi forspurðu í trausti þess að meiri hlutinn geri það sem ríkisstjórnin segir honum. Það er kannski líka í takt við það sem þessar áhyggjur aukast. Þetta er ekki útúrsnúningur eða pólitísk pilla heldur raunverulegar áhyggjur. Ég óska eftir afstöðu hv. þingmanns til þessa.