Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hlutans sem er með breytingartillögu. Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum um markmið frumvarpsins og leggur líkt og meiri hlutinn áherslu á að sameining stofnananna muni auka skilvirkni í málaflokknum. Fjölmenningarsetur hefur leikið mikilvægt hlutverk í málefnum innflytjenda og unnið með sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum með stuðningi og ráðgjöf. Þar hefur safnast upp reynsla og sérþekking sem ekki má glatast við sameiningu stofnananna.

Þegar Fjölmenningarsetrið var stofnað með lögum árið 2012 voru erlendir ríkisborgarar með lögheimili hér á landi 25.444. Nú þegar leggja á stofnunina niður eru þeir orðnir 61.148 og vísbendingar um að þeim muni enn fjölga. Stöðugildum Fjölmenningarseturs hefur ekki fjölgað að sama skapi og hefur starfsemin lengst af glímt við fjárhagsvanda og mikið álag á of fáa starfsmenn.

Undirbúningur vegna sameiningarinnar hefur, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið í velferðarnefnd hjá Vinnumálastofnun, staðið frá því í haust og samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu voru einungis tvær sviðsmyndir til skoðunar. Önnur sviðsmyndin fól í sér sameiningu Fjölmenningarseturs og Vinnumálastofnunar en hin sviðsmyndin fól í sér að sett yrði á fót ný sjálfstæð stofnun sem þjónusta myndi umsækjendur um alþjóðlega vernd, flóttafólk og innflytjendur. Það vekur furðu minni hlutans að ákvörðun um að leggja Fjölmenningarsetur niður virðist hafa verið tekin áður en farið var af stað með þarfa- og sviðsmyndagreininguna.

Öllum umsagnaraðilum ber saman um að starfsfólk Fjölmenningarseturs hafi, á þeim rúma áratug sem setrið hefur starfað, unnið sér og setrinu inn dýrmætt traust og byggt upp þekkingu og reynslu sem ekki er sjálfsagt að muni yfirfærast til Vinnumálastofnunar við sameiningu. Vinnumálastofnun er vissulega þjónustustofnun en þar eru skilyrði fyrir þjónustu og viðurlögum beitt. Mikilvægt er að lögð verði á það áhersla að Vinnumálastofnun byggi upp og vinni traust nýrra skjólstæðinga. Minni hlutinn saknar þess að sjá ekki neina áætlun um hvernig ætlað sé að vinna traust innflytjenda og flóttafólks til Vinnumálastofnunar. Til bóta væri að breyta nafni stofnunarinnar í samræmi við ný verkefni.

Jákvæðni og væntingar um stærri og betri stofnun var ríkjandi meðal starfsmanna Fjölmenningarseturs í upphafi þegar hugmyndin um sameiningu kom fram. En þar sem sameiningarferlið gekk ekki eins og lofað var jókst óvissa starfsmanna um framtíð sína og verkefni Fjölmenningarseturs. Sárlega skorti á samskipti og upplýsingar frá ráðuneytinu og svo virðist að í engu hafi verið farið eftir því leiðarljósi um sameiningu ríkisstofnana sem sett eru fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins um sameiningu ríkisstofnana og tengdar breytingar. Minni hlutinn gagnrýnir ráðuneytið harðlega fyrir ófullnægjandi undirbúning við niðurlagningu stofnunar sem samkvæmt lögum á að starfa og er með lögbundið hlutverk.

Lögbundið hlutverk Fjölmenningarseturs er yfirgripsmikið og tiltekið í lögum um málefni innflytjenda. Ráðuneytið á að sjá til þess að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu þar til Alþingi hefur ákveðið að flytja skuli verkefnin annað. Félags- og vinnumarkaðsráðherra mælti fyrir frumvarpi um sameiningu Fjölmenningarseturs og Vinnumálastofnunar 7. mars með gildistöku 1. apríl. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega hversu seint málið kom fram og takmarkaða möguleika löggjafans til að meta stjórnsýslu og undirbúning flutnings.

Svo virðist sem ekki hafi verið farið eftir bestu ráðleggingum um sameiningarferli, þ.e. um að tilgreina skýrt markmið og rök fyrir sameiningu, um samráð til að afla stuðnings við sameiningu og ákvörðun um hana, um undirbúning og gerð samrunaáætlunar og um virka þátttöku starfsmanna og gerð áætlana um úttektir til að meta árangur og draga lærdóm. Auk þess hefur ekki verið gætt nægilega að mannlega þættinum við sameiningu en gæta þarf vel að honum eigi sameining að heppnast. Við formlega sameiningu er nauðsynlegt að endurskoða og setja ný markmið fyrir sameinaða stofnun og gera viðeigandi breytingar á ferlum, störfum, kerfum og aðstöðu. Jafnframt er nauðsynlegt að hefjast handa við að móta eina menningu fyrir vinnustaðinn svo að sameinuð stofnun virki sem ein heild líkt og bent er á í skýrslu fjármálaráðuneytisins um sameiningu stofnana.

Þrátt fyrir að minni hlutinn gagnrýni harðlega hvernig staðið hefur verið að undirbúningi og ákvörðun um sameiningu telur minni hlutinn að betra sé að samþykkja frumvarpið með gildistöku 1. apríl en að fresta henni til að eyða þeirri óvissu sem starfsfólk Fjölmenningarseturs hefur þurft að búa við. Minni hlutinn hvetur til þess að sameiningarferlið innan Vinnumálastofnunar verði vandað og skýrt, reynsla og þekking yfirfærist sem best og séð verði til þess að lögbundið hlutverk verði uppfyllt.

Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Fyrir 1. apríl 2025 verði birt úttekt á sameiningarferlinu og mat lagt á hvort markmiðum með sameiningunni hafi verið náð.

Undir þetta nefndarálit skrifa, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Guðmundur Ingi Kristinsson og Halldóra Mogensen.

Forseti. Vegna þeirra orða sem féllu hér áðan í andsvörum framsögumanns meiri hluta, verð ég að segja að þar tjáir hún ákaflega einhliða mynd af því hvernig samráði var háttað. Það er ekki þannig að allir sem við töluðum við í hv. velferðarnefnd hafi talað um að samráð hafi gengið eins og hv. þm. Jódís Skúladóttir lýsti hér áðan. Ég hef auk þess í samtölum mínum utan nefndarinnar farið ofan í þetta mál og því miður, eins gott og málið gæti verið, er undirbúningi ábótavant. Líkt og fram hefur komið á nefndarfundum er ýmislegt sem á eftir að gera vegna þess að löggjafinn hefur ekki afgreitt frumvarpið. Þess vegna er það mjög bagalegt að í frumvarpi um að leggja niður stofnun sem á að starfa samkvæmt lögum og er með mjög mikilvægt og víðfeðmt hlutverk, sem er afskaplega mikilvægt í stöðunni sem við erum í akkúrat núna og ég lýsti hér áðan, sé svo stuttur tími gefinn fyrir nefnd og okkur hér í þingsal til að vinna með málið.

Það er ekki þannig að framkvæmdarvaldið geti bara hagað sér alla vega og látið eins og löggjafinn skipti ekki máli. Það er ekki þannig að ráðuneytið ákveði að leggja niður lögbundna stofnun með lögbundið hlutverk, það er Alþingi sem ákveður það. Það sem oft hefur verið gert í svona málum — af því að þetta er ekki fyrsta sameiningin sem átt hefur sér stað og þess vegna er einmitt til í fjármálaráðuneytinu svona góð lýsing á því hvernig best er að gera hlutina — er að frumvörp um sameiningu hafa verið samþykkt en gildistíminn er fram í tímann. Gefinn er tími til að undirbúa sameininguna en um leið og frumvarpið hefur verið samþykkt þá er óvissunni létt af starfsfólkinu sem veit í hvað stefnir. Það var ekki þannig í þessu tilfelli.

Ég held reyndar að þessi sameining sé góð hugmynd. Ég er ekki að gagnrýna það, heldur að undirbúningurinn hafi ekki verið nægilega góður. Okkur greinir augljóslega á um það, ef borinn er saman málflutningur minn og málflutningur framsögumanns meiri hlutans hér áðan. En þá myndi mér líða betur með málið, svona til að draga lærdóm af öllum þessum hlutum, ef þingheimur myndi samþykkja þessa breytingartillögu um að eftir tvö ár verði búið að taka út sameiningarferlið, úttektin verði birt og mat lagt á hvort markmiðum með sameiningu hafi verið náð. Þetta er ekki breytingartillaga sem er í neinum skilningi hættuleg. Hún er einmitt í takt við það sem stendur í skýrslunni um sameiningu ríkisstofnana, að ef samrunaáætlunarferlið er gott þá er best að í því sé gert ráð fyrir úttekt og mati á því hvort markmiðum hafi verið náð. Ég vona að stjórnarmeirihlutinn sé ekki svo smeykur við niðurstöðuna að hann þori ekki að samþykkja þessa tillögu.