153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú bið ég hv. þingmann að lesa álitið yfir. Þar færum við rök fyrir og höfum áhyggjur af því að vegna þess að undirbúningurinn var ekki nægilega góður þá verði mikilvægum verkefnum, sem sannarlega er kallað á, ekki nægilega vel sinnt og þá muni samrunaferlið ekki ganga eftir. Við höfum áhyggjur af því. Ég get auðvitað ekki staðið hér í pontu og vísað í orð fólks en ég veit að fólkið sem kom fyrir nefndina og er að hlusta á þetta samtal er mjög hissa á þessari eindregnu túlkun hv. þingmanns sem fram kemur hér. Allt í lagi — okkur í minni hlutanum finnst að það þurfi að fara í þetta verkefni en það hefði átt að undirbúa það betur. Við munum samþykkja það en við viljum að ferlið verði metið. Ef það var svona frábært og gott þá þarf meiri hlutinn ekki að vera hræddur við að samþykkja breytingartillöguna. Ég ítreka, að í leiðbeiningum um samruna stofnana er talið best og mælt með því að meta niðurstöðuna svo hægt sé að læra af samrunanum. Þegar næsta ríkisstofnun verður síðan lögð niður eða henni rennt undir aðra þá verði hægt að nýta þá þekkingu. Það er okkar breytingartillaga. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að ráðuneytið t.d. sjái ekki neinn galla á því sem þarna hefur farið fram (Forseti hringir.) og á þessum skorti á undirbúningi á öllum þessum mikilvægu og lögbundnu verkefnum sem eru nú að fara yfir í aðra stofnun. (Forseti hringir.) Undirbúningurinn, hvernig mannlegi þátturinn er og hvernig ferlið er allt saman, hvernig nýja stofnunin tekur við verkefnunum, menningin og jafnvel nafnið — þetta skiptir allt máli en er ekki komið á hreint varðandi þennan samruna.