Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[14:42]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Ég gæti nú kannski sagt að betur hefði farið á því að hann hefði hlustað á ræðu mína. (EÁ: Ég hlustaði á hana, heldur betur.) Kjarninn í henni var þessi: Ég var að ræða um valdastöðu bænda í skiptingu verðmætanna, sem er sambærileg um allan heim eins og ég þekki til. Bændur bera lítið úr býtum yfir höfuð þótt örugglega séu til einhverjar undantekningar á því. Ég var að ræða um það af hverju þessi staða væri komin upp. Ég vil að umræðan um þessa landbúnaðarstefnu horfi líka til þess sem og hvernig við ætlum að breyta því og hvernig við styrkjum alla ramma og allar undirstöður, hvort sem er við frumframleiðendur, úrvinnsluiðnaðinn eða þjónustuiðnaðinn, og þar af leiðandi byggðirnar í sveitunum.

Um óðalsjarðirnar og þær breytingar þá vil ég frekar sækja fram, ekki með beinum stuðningi við ungt fólk til þess að hefja búskap, þótt alltaf verði að vera einhver millivegur í því, heldur í gegnum skattkerfið og hvernig við meðhöndlum t.d. sölu jarða á milli kynslóða. Ég veit að þessum úrræðum er beitt í löndum sem við getum borið okkur saman við og við eigum í gegnum þá leið einnig möguleika á að tryggja áframhaldandi búsetu og búskap. Við eigum að vera alveg óhrædd í því, hv. þingmaður, að segja: Við eigum að beita landbúnaðarstefnu, skattastefnu og þess vegna stefnu í orkumálum til þess að tryggja byggð í sveitum og búsetu á jörðum. Grundvallaratriðið er, hv. þingmaður, að styrkja afkomu landbúnaðarins. Þá hef ég ekki áhyggjur af því að ungt fólk hasli sér völl í íslenskum landbúnaði vegna þess að mér finnst ótrúlegt að sjá hversu mikill áhugi er hjá ungu fólki á að hefja búskap. Ég skil það líka vel því að ég var einu sinni ungur. Það er langt síðan.