Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[14:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef miklar áhyggjur af því að það séu ekki eðlileg kynslóðaskipti hjá bændum. Ég óttast að bændur sem eru núna að taka við búum þurfi í fyrsta lagi að borga niður kaupin á hinni nýju jörð og líka hafa lífsafkomu. Það er gríðarlegur fjármagnskostnaður við að kaupa nýja jörð í dag og þann tækjakost sem á þarf að halda. Ég hef áhyggjur af þessu, en hv. þingmaður sagði reyndar: Ef við erum með skattkerfið í lagi og hitt, og skilyrðin. Ég tel að þessi skilyrði séu ekki fyrir hendi. Ég tel vissulega að við eigum að tryggja það innan skattkerfisins, við sölu á jörðum til bænda, að þeir geti fengið skattafslátt fram í tímann. Það breytir því ekki að þótt bændur séu fátækir í öðrum löndum þá eiga þeir ekki endilega að vera fátækir á Íslandi. Ég tel að staða bænda, lífsafkoma þeirra og kjör séu allt of lág. Varðandi mikilvægi landbúnaðarvara í íslensku samfélagi og mikilvægi lambakjötsins — ég get borið lambakjötið saman við stöðu þess í Noregi — þá tel ég að staða íslenskra landbúnaðarafurða sé mjög sterk á íslenskum markaði í huga almennings. Þessi verðmæti endurspeglast ekki í lífsafkomu bænda.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aftur: Telur hann skorta, í þessa tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu, að sérstakur kafli og sérákvæði verði um lífsafkomu bænda og að hún sé mikilvæg út frá fjölskyldubúinu, kynslóðaskiptum og landsvæðum sem snerta landbúnað?