Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[15:20]
Horfa

Thomas Möller (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu. Ég er í rauninni að tala um að hagsmunir neytenda og hagsmunir bænda þurfi að fara saman. Skattgreiðendur eru að styðja við þetta. Neytendur njóta góðs af því náttúrlega líka með lægra verði en það þarf að vera hvatning til hagræðingar í þessari grein. Varðandi það sem var talað um hérna áðan, hvort þetta væri niðurgreiðsla á rafmagni, þá má benda á að stóriðjan á Íslandi er að fá rafmagn á bilinu 3–5 kr., að mér sýnist. Það er samt hagnaður á því rafmagni. Það er ekki verið að niðurgreiða neitt rafmagn til stóriðju. Ef ég er að tala um að grænmetisiðnaður fái rafmagn á hagstæðu verði, hagstæðara en hinn almenni neytandi, þá er ég ekki að tala um niðurgreiðslu. Ég er að tala um verðlagningu sem hefur annað í huga, sem tekur tillit til grænna áhrifa þess að ákveðin iðngrein eins og grænmetisframleiðslan fái rafmagn á verði þannig að það geti keppt við innflutt grænmeti. Innflutta grænmetið notar mjög lítið rafmagn, það notar sólina, þannig að við erum í rauninni að keppa við sólina þegar við erum að tala um íslenska framleiðslu. En svo er kolefnissporið á þessu grænmeti þegar það er á leiðinni til Íslands, ýmist með flugi eða skipi.