Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[15:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir framsögu sína um tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 og þær fróðlegu umræður sem hér hafa átt sér stað. Helsta baráttumál Flokks fólksins er baráttan gegn fátækt og ég tel að stór hluti bænda geti fallið undir þá skilgreiningu, ekki síst sauðfjárbændur og ekki síst sauðfjárbændur í mínu kjördæmi, Húnavatnssýslum og á Vestfjörðum, jafnvel á Vesturlandi líka. Eins og kom fram í andsvörum hjá mér finnst mér vanta að hugtakið bóndi komi nægilega skýrt fram í þessari landbúnaðarstefnu. Það myndi gefa þessari stefnu miklu meiri tilfinningu að fjalla um þá stétt sem raunverulega er hinn íslenski landbúnaður, ef svo er komist að orði, og mikilvægt að lífsafkoma hennar sé tryggð með öllum hætti og að hún sé tryggð þannig að staðinn sé vörður um fjölskyldubúið, íslenska fjölskyldubúið, íslenska bændabýlið. Þetta er svipað í Noregi. Þar er fjölskyldubúið grunneiningin. Það er sú grunneining sem við eigum að standa vörð um. Það er líka mjög mikilvægt að bóndinn eigi land sitt. Það er líka grundvallaratriði.

Ég hef komið til Suðureyja, Hebrides-eyja. Þeir sem eiga landið þar eru ekki einstaklingar sem búa á landinu. Það er einhver dómari í London, lögfræðingur í Edinborg, auðmenn hingað og þangað. Þeir leigja svo landið og það er svokallaður „gatekeeper“ sem sér um landið. Allir hafa farið fyrir löngu síðan, flúið til Kanada, flúið til Ástralíu og hleypt heimdraganum. Maður sér það á búunum hve illa þau hafa verið hirt og hvernig sveitir Suðureyja, Hebrides-eyja, eru raunverulega. Hins vegar er á Hjaltlandseyjum og Orkneyjum svokallað „owner occupation“, ef ég má sletta, þar sem eigandinn er búsettur á landinu. Það er þetta kerfi sem við eigum að verja í íslenskri landbúnaðarstefnu. Við eigum líka að tryggja að ungir bændur geti komið inn í greinina með auðveldum hætti, keypt sína jörð, verið sínir eigin herrar á sinni jörð, ekki leiguliðar, og tryggja þannig kynslóðaskiptin. Bændur eru mikilvægir vörslumenn lands á Íslandi. Vissulega er það að vera bóndi ákveðinn lífsstíll. Allir velja sér sinn lífsstíl. Svo er nú það.

Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni um land og mikilvægi þess þá minnir það mig alltaf á orð Marks Twains: Ef þú efnast þá skaltu kaupa land. Af hverju? Þeir eru hættir að framleiða það. Svo einfalt er það. Land er gríðarlega mikilvægt og við verðum að koma í veg fyrir að erlendir aðilar, erlendir auðmenn sem kaupa upp land á Íslandi í stórum stíl — einn enskur auðmaður, einn ríkasti maður Bretlands sem fluttur er til Mónakó eftir að þeir gengu úr Evrópusambandinu, er búinn að kaupa sennilega hátt í 50 jarðir, 40–50 jarðir. Það er ekki góð þróun. Í sumum ríkjum, eins og á Englandi, er það stöðutákn að eiga land. Allur aðallinn á Englandi er landeignaraðall. Þeir eiga gríðarlega mikið land. Við eigum að tryggja að bændur eigi sitt land.

Ég get ekki talað um land öðruvísi en að minnast á þjóðlendumálin. Ég hef gætt hagsmuna landeigenda á Vestfjörðum. Það eru mestu ólög sem samin hafa verið á Íslandi og sýna stöðu bænda og sýna stöðu landeigenda í landinu og þá þróun sem hefur átt sér stað varðandi landeigendur.

Varðandi skjalið sjálft, tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, þá segir í upphafsorðum að meginmarkmið landbúnaðarstefnunnar verði að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ég hefði viljað sjá setningu á eftir um að íslenskur landbúnaður sé borinn uppi af bændum og að tryggt verði að mikilvægi þessarar stéttar sé viðurkennt. Síðan ætti að koma kafli, á undan kaflanum um fæðuöryggi, sem fjallar um bændur og bændastéttina og lífsafkomu þeirra og þau atriði sem ég hef hér fjallað um; fjölskyldubúið, lífsafkomu bænda, kynslóðaskipti o.s.frv. til að tryggja að landnýting og varðveisla landbúnaðarlands verði tryggð, eins og í 4. kaflanum, til að tryggja nýsköpun og tækni, til að tryggja menntun og þróun og að það verði gert með fyrirkomulagi stuðnings við landbúnað, sem er í 10. kafla.

Það er búið að fjalla hér aðeins um verndartollana. Ég veit eiginlega ekki alveg hvar ég á að byrja með það, virðulegur forseti. Evrópusambandið er með gríðarlega verndartolla á landbúnaðarafurðir. Stærstu útgjöld Evrópusambandsins eru til landbúnaðarmála. Þegar ég var í námi í Leuven, kaþólska háskólanum í Leuven í Belgíu, og var að læra Evrópurétt, þá voru um 50% af útgjöldum Evrópusambandsins styrkir til landbúnaðar. Þetta snýr ekki bara að landbúnaði. Tökum sem dæmi súkkulaði. Hafa hv. þingmenn keypt súkkulaði frá Afríku? Nei, ég efast um það. Kakóbaunirnar koma frá þróunarríkjunum en síðan er lokavinnslan í Sviss og öðrum ríkum ríkjum. Evrópusambandið kaupir jú kannski te frá Afríku og kaffibaunir en það er engin sala á öðrum landbúnaðarafurðum frá Afríku og öðrum ríkjum, gömlu nýlendunum, til Evrópusambandsins. Þetta er allt varið eins og enginn væri morgundagurinn.

Íslenska fjölskyldubúið getur ekki keppt við framleiðsluvörur frá öðrum ríkjum heims á heimsmarkaði. Svo einfalt er það. Þetta er bara spurning um að við leggjum niður íslenskan landbúnað í núverandi mynd ef við ætlum að taka verndartollana af. Það eru sterk rök fyrir styrkjum íslenska ríkisins til bænda. Stuðningur ríkisins við landbúnað, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og hlutfall af ríkisútgjöldum, er ekki mikill miðað við þau verðmæti sem íslenskur landbúnaður skilar til íslensks samfélags. Íslensk matvæli eiga sér mjög sterka stöðu í íslensku samfélagi, mun sterkari stöðu en t.d. norsk matvæli í norsku samfélagi. Ég hef búið í Noregi og ég hef séð það, upplifað það. Norðmenn hafa engin þorrablót, það er enginn þorramatur, þeir eiga ekkert skyr. Við eigum að standa vörð um það að íslenskt lambakjöt haldi þeirri stöðu, hvort sem það er grillmatur, hangikjöt eða páskalambið. Svo einfalt er það. Vissulega er hægt að auka stuðning með niðurgreiðslum á rafmagni og öðru slíku til að auka framleiðslu á grænmeti sem er bara sjálfsagt mál.

Mig langar að benda á land sem lenti í hungursneyð eftir síðari heimsstyrjöld, Holland, þar var gríðarleg hungursneyð í tvö ár. Þar var landbúnaðarráðherra sem bjó til módel sem leiddi til þess að Holland, sem er mun minna ríki en Ísland, er núna eitt helsta matvælaframleiðsluland Evrópu. Hollendingar selja matvæli út um allan heim, t.d. agúrkur og fleiri vörur. Þeir hafa gengið lengra, þeir eru meira að segja með stærsta markað í heimi í blómum og fá blóm alls staðar að úr heiminum. Þeir eru mjög öflugir á öllum sviðum landbúnaðar. Það er af því að þeir hafa búið til módel sem hefur þjónað landbúnaðinum, þjónað bændum og leitt til gríðarlegrar tækniþróunar í landbúnaði hjá þeim.

Ég tel að við eigum að horfa til þessara ríkja þannig að íslenskir bændur og íslenskur landbúnaður fái aftur þá stöðu í samfélaginu sem stéttin á skilið. Það verður gert með því að geta þess í þessu skjali og Alþingi Íslendinga á að ganga fram með fordæmi og viðurkenna mikilvægi íslenskra bænda. Það eigum við að gera í þessari þingsályktun. Það á að hefja bændastéttina aftur upp til vegs og virðingar í íslensku samfélagi. Við vorum með bændasamfélag í 500 ár. Núna er þetta orðin, ég veit ekki hvernig á að orða það, en þetta virðist alla vega vera orðin einhver afgangsstærð að hluta til, alla vega hérna á höfuðborgarsvæðinu. Alþingi Íslendinga á að senda skýr skilaboð til þjóðarinnar með þingsályktun um landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Það er einungis þannig sem við getum tryggt fæðuöryggi, landnýtingu og varðveislu landbúnaðarlands, nýsköpun og tækni, menntun og rannsóknir og þróun í landbúnaði, að ógleymdu mikilvægi landbúnaðar fyrir loftslagsmál. Það eru bændur sem munu framkvæma öll þessi atriði sem talin eru upp í þingsályktunartillögunni og þess vegna er mjög mikilvægt að nefna þá stétt með nafni og að íslenska ríkið muni styðja áfram íslenskan landbúnað með því styrkjakerfi sem hér er við lýði og er búið að vera í mörg ár, áratugum saman.

Ég tel hins vegar að við þurfum að endurskoða styrkjakerfið, endurskoða skattkerfið með það að leiðarljósi að efla íslenskan landbúnað. Það er auðvelt að gera. Þetta er algjört lífsspursmál fyrir landsbyggðina, lífsspursmál fyrir kjördæmi eins og Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, í hinum dreifðu byggðum, og þá ekki síst fyrir sauðfjárbúskap (Forseti hringir.) og hinn hefðbundna landbúnað og hið hefðbundna módel sem er fjölskyldubúið.