Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér svokallaða bókun 35, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, frumvarp utanríkisráðherra. Það er eins knappt og það getur verið, ein grein og til viðbótar henni er gildistökuákvæði. 1. gr. hljómar svo, með leyfi forseta:

„Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“

Hér í andsvörum rétt áðan mátti skilja það sem svo að þessar breytingar og þessi breytta innleiðing bókunar 35 fæli bara í sér réttindi fyrir einstaklinga og fyrirtæki en auðvitað fylgja skyldurnar með um leið. Ég hef tekið sem dæmi um skyldur sem við værum betur komin án það furðulega fyrirkomulag endurmenntunar atvinnubílstjóra til að þeir haldi réttindum til að keyra yfir landamæri, sem eru ekki praktísk réttindi hér á Íslandi eins og við þekkjum. Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma þá er forsenda fyrir honum að Ísland geti hafnað innleiðingu á regluverki sem gengur gegn hagsmunum Íslands eða á ekki við. Maður hlýtur að spyrja sig í því ljósi hvers vegna þessi ofuráhersla er á að uppfæra þessa bókun 35 til þess háttar sem hér er lagt til í því ljósi að þetta var frumforsenda á sínum tíma. Það sem hefur gerst í millitíðinni er að samningurinn sem slíkur hefur með einum eða öðrum hætti sprungið út, útvíkkað sjálfan sig þannig að hann nær nú til fleiri sviða en upphaflega féllu undir hið svokallaða fjórfrelsi. Sömuleiðis er því haldið fram að þeir sem hafi efasemdir um þessa breyttu innleiðingu bókunar 35 séu á móti EES-samningnum. Ég veit ekki til þess að ég sé það. En ég er á móti því að samningurinn þenjist út yfir fleiri svið með þeim hætti sem raunin hefur verið á undanförnum árum án þess að við veitum viðspyrnu hér á Alþingi þegar reglur annaðhvort eru mótdrægar hagsmunum Íslands eða hreinlega eiga ekki við og nóg er af þeim. Tökum bara lítið dæmi sem er samt risastórt. Það er sú breyting sem samþykkt var á Evrópuþinginu í gær um breytingar á skattlagningu á millilandaflugi. Það er reglubreyting sem blasir við öllum sem kynna sér málið að á ekki við hér á landi og gengur verulega gegn hagsmunum Íslands eins og hún stendur núna. Ég er hræddur um það að með þessari breyttu nálgun þá séum við að veikja stöðu okkar hvað það varðar að verjast íþyngjandi löggjöf sem annaðhvort á ekki við innlenda hagsmuni eða gengur í berhögg við innlenda hagsmuni.

Mig langar í þessu samhengi, af því að greinin er stutt, að lesa hér nokkur orð úr grein sem fyrrverandi hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, birti á heimasíðu sinni í gær frekar en fyrradag, undir yfirskriftinni: Fullveldi. Hefst nú lesturinn, með leyfi forseta.

„Ég tel að íslenska lögfræðinga greini ekki á um að Ísland sé fullvalda ríki en svo nefnist ríki sem fer með æðsta vald í eigin málefnum, hvort sem er lagasetning, stjórnsýsla eða dómsýsla. Þetta felst í 2. gr. stjórnarskrárinnar og fleiri ákvæðum sem árétta þetta.

Nú flytur ríkisstjórnin frumvarp til almennra laga með svofelldum texta:

„Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.““

Tilvitnun í 1. gr. þessa frumvarps lýkur og áfram heldur, með leyfi forseta:

„Við lagasetningu hér á landi gildir vitaskuld sú regla að yngri lög skuli ganga fyrir þeim eldri. Sé ekki efnislegt samræmi milli eldri laga og yngri skulu þau yngri gilda.

Hér virðist vera gert ráð fyrir að skuldbindingar samkvæmt EES- samningnum, sem ekki hafa verið leiddar í lög hér á landi, heldur aðeins með stjórnvaldsfyrirmælum, skuli ganga framar yngri almennum lagafyrirmælum ef ekki er efnislegt samræmi. Í þessu felst í reynd að lagasetningarvaldið er í þessum tilvikum tekið úr höndum íslenska löggjafans (Alþingis) og fengið í hendur erlendum aðila sem ákveður efni skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum.

Að mínum dómi er ljóst að efni fyrrgreinds frumvarps stenst ekki fullveldisrétt þjóðarinnar sem allir virðast vera sammála um að felist í stjórnarskránni. Það er því ástæða til að benda ríkisstjórn Íslands á að ekki er unnt að samþykkja nefnt frumvarp sem lög í landinu nema fyrst hafi stjórnarskránni verið breytt í þá veru að heimila svona lagasetningu.“

Það er auðvitað kúnstugt að hér sé mælt fyrir frumvarpi af hæstv. utanríkisráðherra, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, sem gleður fyrst og fremst þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar sem heiðarlega gangast við því alla daga að þau vilji undirgangast, taka inn og verða hluti af Evrópusambandinu eins og það er. Það kemur á óvart — mér sýndist nú hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir rétta upp hendi hér úti í sal en mér heyrist hún sömuleiðis hafa óskað eftir því að fara í andsvar þannig að hún leiðréttir kannski þá afstöðu sem ég skildi í handahreyfingunni. En með þessu regluverki eins og hæstv. ráðherra leggur það til núna er verið að draga úr skýrleika laga á Íslandi. Það er verið að rugla með, hringla með þessa reglu, sem allir hafa gengið út frá alla tíð, að yngri lög gangi framar eldri lögum. Fyrir því sjónarmiði hafa verið færð býsna góð rök af til þess bærum aðilum. Það hlýtur auðvitað að koma til skoðunar í meðförum hv. utanríkismálanefndar þegar málinu hefur verið vísað þangað.

Það er ekki til bóta í neinu samhengi að mínu mati að það verði hnykkt á þessu regluverki með þeim hætti að Evrópurétturinn hafi þennan forgang umfram settan innlendan rétt. Ég hef nú lýst því þannig að það sé verið að teppaleggja yfir gildandi innlendan rétt með þessari löggjöf, verði hún afgreidd eins og hún liggur hér fyrir.

En ég vil jafnframt minna á og draga fram orð hæstv. ráðherra í framsöguræðu sinni þar sem ráðherra virtist vera það að meinalausu að breytingar verði gerðar eða efnisleg afgreiðsla málsins verði ekki með þeim hætti sem ráðherrann mælti fyrir. Þetta kom mér vissulega dálítið á óvart en ég tel að í þessu séu ákveðin tækifæri til að laga málið ef það er raunverulegur vilji og ósk þessarar ríkisstjórnar að klára málið á þessu þingi.

En ég held að við þingmenn eigum að nálgast það þannig að gefa okkur þann tíma sem þarf og það eru nú fleiri mál en þetta sem hafa dottið á milli þinga. Það verði ekki reynt í einhverjum flýti að afgreiða málið í einhverjum þinglokasamningum í vor. Ég held að það væri betra að nálgast málið með þeim hætti að utanríkismálanefnd tæki sér góðan tíma í að vinna það og legði þá vinnu áfram inn til endurflutnings málsins næsta haust, því það getur ekki verið markmiðið, ég bara trúi því hreinlega ekki, markmið hæstv. utanríkisráðherra, að nálgast mál með þeim hætti að hér verði aukin réttaróvissa. Í umræðu um þriðja orkupakkann á sínum tíma var mikil látið með það að sú innleiðing gengi meira og minna öll út á það að tryggja neytendavernd. Síðan hefur lítið verið fjallað um neytendavernd í því samhengi. Nú er fjallað mikið um að þetta mál sé til að tryggja réttindi einstaklinga og fyrirtækja en það hefur farið minna fyrir dæmum um hvaða réttindum einstaklingar og fyrirtæki hafa orðið af á fyrri stigum og hvaða einstaklingar og fyrirtæki hafi ekki getað sótt þau réttindi með þeim leiðum sem færar eru.

Það er auðvitað þannig að það er alveg sama hvernig þessi bókun verður uppfærð, ef það verður raunin, við erum ekki að fara að finna okkur í þeirri stöðu að fólk og fyrirtæki standi ekki í málarekstri við stjórnvöld reglulega. Það bara koma upp slík dæmi í raunheimum, það verða alltaf deilur um það hver réttindi og skyldur einstaklingar annars vegar og fyrirtæki hins vegar og síðan ríkið telja sig hafa og eiga. Það er ekki eins og að með uppfærslu þessarar bókunar eins og hér er lagt til verði íslenskt samfélag laust við málarekstur á grundvelli þeirrar löggjafar sem EES-samningurinn færir hér inn sem á færibandi væri. Þannig að ég held að við eigum að fara sérstaklega varlega í þetta. Við eigum að gefa okkur góðan tíma. Ég nefni þau varnaðarorð sem m.a. birtast í þessari grein fyrrverandi hæstaréttardómara, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, og sömuleiðis komu fram sjónarmið í viðtali við Stefán Má Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hann galt varhuga við þessari nálgun. Og það eru fleiri, víðar hefur verið rætt um þetta þar sem slegnir eru varnaglar. Ég sé hér að fyrirsögn viðtalsins við Stefán Má prófessor er: Getum ekki lofað forgangi til framtíðar, sem eru hin raunverulegu áhrif sem verða af breytingunni eins og hún er hér lögð til. Það mætti nefna fleiri dæmi. Það er grein Markúsar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, í afmælisriti EFTA-dómstólsins þar sem segir efnislega að óhugsandi sé að menn bindi hendur Alþingis til framtíðar eins og lagt er til í bókun 35. Fleiri slík varnaðarorð mætti nefna.

En athyglisverðastur þykir mér kannski sá viðsnúningur sem virðist hafa orðið frá býsna vel rökstuddu svarbréfi til ESA frá utanríkisráðherra fyrir rúmum tveimur árum síðan þar sem á, ef ég man rétt, rúmum 20 blaðsíðum var bara svarað skref fyrir skref þeim sjónarmiðum sem komu fram frá ESA og það gert býsna vel. Það er ástæða til að hrósa þáverandi utanríkisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir þá góðu vinnu og hann hefur örugglega verið studdur af aðstoðarmanni sínum, núverandi hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur, í þeim skrifum. En hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir fær tækifæri kannski hér á eftir, fari þingmaðurinn í ræðu, til að útskýra hvað hefur breyst frá því að það bréf var sent til ESA fyrir rúmum tveimur árum síðan.

Annað sem ég hef nefnt hér eru tímasetningarnar. Auðvitað hljóta tómlætissjónarmið að koma upp þegar ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, tekur sér 20 ár til að ræskja sig og 30 til að láta til skarar skríða hvað þessa meintu röngu innleiðingu varðar. Tómlætisáhrif hljóta að koma sterklega til greina í þeim málarekstri sem mér þætti skynsamlegast að láta á reyna hvort ESA legði í á þeim grundvelli sem hér er teiknaður upp. Ráðherrar mega auðvitað ekki finna sig á þeim stað að telja það sérstaka ógn. Til þess er EFTA-dómstóllinn að taka á málum þar sem sjónarmið fara ekki saman. Við eigum ekki að vera hrædd við þá leið, bara fagna henni frekar.

En ég vil bara minna á það hér því að ræðutíminn er að klárast að þegar við undirgöngumst og gerumst aðilar að EES-samningnum fyrir réttum 30 árum síðan var forsendan fyrir því að við gætum hafnað innleiðingu reglna sem annaðhvort ættu ekki við á Íslandi eða gengu bersýnilega gegn hagsmunum landsins. Þetta var forsendan. Þróun mála hefur verið með þeim hætti að íslenskir stjórnmálamenn, stjórnvöld hverju sinni, hafa ekki spyrnt við fótum með nægilega ákveðnum hætti, að mínu mati hið minnsta, og það er það sem hræðir menn þegar horft er til þess að breyta innleiðingu bókunar 35 með þeim hætti sem hæstv. utanríkisráðherra leggur til núna.