Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil hér koma sérstaklega inn á það að með þessu frumvarpi er á engan hátt verið að raska lagasetningarhlutverki Alþingis. Það er ekki verið að taka það hlutverk úr höndum þingsins. Það er einfaldlega rangt að verið sé að fela erlendum aðila það vald. Það er okkar ákvörðun hverju sinni að taka upp gerðir og reglur sem falla undir svið EES-samningsins í þann samning og þá með breytingum eða aðlögunum eftir atvikum. Það er mjög skýrt að í greinargerð með frumvarpinu kemur einmitt fram að það er ekki verið að raska rétthæð réttarheimilda. Það gætir líka ákveðins misskilnings um það. Því hefur verið haldið fram að þegar um er að ræða stjórnvaldsfyrirmæli sem stangast á við lög þá gildi stjórnvaldsfyrirmælin. Það er alls ekki, heldur íslensk lög og íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og stjórnvaldsfyrirmæli. Þetta skiptir máli.

Ég get ekki annað en komið hingað upp og nefnt það sérstaklega, þegar hv. þingmaður fjallar um þriðja orkupakkann og að nú fari lítið fyrir umræðu um neytendavernd vegna hans, að það var hann sem hélt því fram að um væri að ræða byltingarkennt frumvarp sem myndi öllu breyta á Íslandi. Sú sem hér stendur talaði um þetta mál sem mjög lítið, frekar ómerkilegt og alla vega mjög skaðlaust mál. Það er ástæðan fyrir því að það hefur ekki slíka slóð á eftir sér að við öll finnum fyrir því máli, vegna þess að það var einfaldlega smámál í efninu en það hafði auðvitað mikil pólitísk áhrif og olli mikilli pólitískri umræðu. Þess vegna vil ég nú bara nefna að það fer nú líka minna fyrir umræðu um öll tómu gróðurhúsin og erlendu aðilana sem leggja hér strengi án þess að biðja okkur um leyfi.

Ég vil síðan spyrja hv. þingmann hvort hann geri þá athugasemd við það — vegna þess að í íslenskri löggjöf í dag má víða finna innlenda löggjöf sem varðar forgang þeirra lagaákvæða sem á vissum sviðum eru ósamrýmanleg og rekast þannig á. Þetta á jafnvel við um árekstur við lögfestar og ólögfestar þjóðréttarskuldbindingar. Þetta er á bls. 13, 14 og 15 í greinargerð með frumvarpinu þar sem fjallað er um lög um ársreikninga, lög um dýralyf, (Forseti hringir.) barnalög og fleiri lög þar sem einfaldlega er búið að setja inn í lögin að sama virkni (Forseti hringir.) sé þar gildandi og verið er að leggja til í afmörkuðum skilyrtum atriðum í þessu frumvarpi.