Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:35]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski óþarfi að staðfesta þetta svar hæstv. ráðherra vegna þess að ég veit að hann hefur átt þetta samtal við hv. þm. Hildi Sverrisdóttur og við sjálfir höfum talað saman á þessum nótum þannig að nú vita allir hér af því. Eitt af því sem er hins vegar í frumvarpi Hildar Sverrisdóttur og annarra þingmanna er að það er lagt til að gjöf fósturvísa verði heimil, en ekki í ábataskyni. Það er ekki í fyrirliggjandi frumvarpi ráðherra. Ég hef áhuga á því að fá að vita hvort ráðherrann sjálfur hafi yfir höfuð mótað sér skoðun á því hvort við eigum að hjálpa fólki sem af einhverjum ástæðum getur ekki eignast barn að þiggja fósturvísa að gjöf, enda sé það ekki í ábataskyni, og það sé eitt af þeim atriðum sem t.d. kæmi til greina að gera breytingar á þegar við vinnum þessi frumvörp samhliða.