Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:38]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þetta frumvarp. Ég held að við séum flest sammála um að hér sé gengið til góðs. Ég var alinn upp fyrstu ár ævinnar af fólki sem hafði allt í lífinu í efnislegu tilliti og andlegu, allt sem fólk gat hugsað sér á Íslandi á þeim tíma og þó síðar væri, nema þetta eina að geta eignast barn. Það var bara einföld skýring á þeim árum, stíflaður eggjaleiðari sem kippt er í liðinn með kortersaðgerð í dag. En síðar á ævinni hef ég kynnst fjölda fólks sem hefur verið að glíma við ófrjósemisvanda. Ég hef kynnst þeirri skelfilegu vanlíðan sem því fylgir að geta ekki eignast barn þó að þú viljir það af öllu hjarta. Við eigum þess vegna að gera allt sem við mögulega getum til að stuðla að því að gera það auðveldara fyrir fólk. Og það að nálgast sæði til slíkra hluta á Íslandi jafn auðveldlega og það gerist frá Danmörku, gömlu herraþjóðinni. Því vil ég spyrja ráðherra: Er eitthvað því til fyrirstöðu að fólk geti nálgast lífefni af þeim toga, íslenskt ef það kærir sig sérstaklega um? Það virðist vera að öll viðskipti beinist til Danmerkur í því.