Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[15:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil gera eins og aðrir hér og taka undir og þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu frumvarpsins. Ég er ein af þeim sem eru meðflutningsmenn á hinu málinu sem hér hefur verið nefnt, sem hv. þm. Hildur Sverrisdóttir er fyrsti flutningsmaður að. Ég tek undir það sjónarmið að vinna málin saman og við höfum gert það áður í nefndum Alþingis að vinna mál saman, sem hafa komið frá þingmönnum og frá ráðherrum, þar sem beinlínis er verið að fjalla um sömu hlutina. En svo er auðvitað eitthvert tvist á öllum málum sem þarf kannski að skoða saman og mér finnst bara góður bragur á því að það verði gert í þessu máli. Þar undir eru auðvitað augljósir punktar og nefndin þarf bara að taka afstöðu til þess þegar gestakomur hefjast í þessu máli.

Eins og við öll þekkjum þá er ekkert sjálfsagður hlutur að eignast barn eða að geta það yfir höfuð. Það að þurfa að njóta aðstoðar tækninnar er úrræði sem margur leitar ekki í fyrr en öll sund eru lokuð. Hér hafa Samtökin '78 verið nefnd og umsögn þeirra í samráðsgáttinni og væntanlega skila þau inn umsögn aftur þegar málið verður komið til velferðarnefndar. Ég tek undir það að við þurfum að horfa til þessa breytta veruleika. Það er ótrúlega skammt síðan ríkið takmarkaði rétt samkynhneigðs fólks — þá vorum við ekki einu sinni farin að tala um trans fólk eða intersex fólk — og það voru alls konar agnúar á því yfir höfuð, bæði hvað varðaði samkynhneigð pör eða einstaklinga, konu í því tilfelli. Þetta var þá bara ekki í boði af því að það þótti ekki tilhlýðilegt. Mér finnst í rauninni ótrúlega stutt síðan og ég veit að það þekkja fleiri hér. En þetta þykir okkur sjálfsagt í dag, sem betur fer. Sem betur fer hefur viðhorfið heilt yfir breyst talsvert mikið og viðmiðin og allt það, af því að auðvitað eigum við öll að geta átt þetta tækifæri, viljum við eignast börn, að geta a.m.k. nýtt tæknina, að lagaramminn geri okkur ekki erfitt fyrir.

Ég tek undir það sem hér hefur verið rætt, um að vera saman í skráðri sambúð eða í hjónabandi, og hæstv. ráðherra kom aðeins inn á rökin fyrir því og það verður væntanlega rætt nánar í nefndinni. Sú umræða getur komið við. Ég er ekki endilega sammála því að ríkisvaldið eigi að hlutast til um það hvernig fólk kýs að búa til börn eða fjölskyldu. Það gerir það ekki þegar við sem ekki þurfum tækniaðstoð gerum það, þá er ríkið ekki með afskiptasemi hvað það varðar. Auðvitað veit ég að þetta er dálítið snúnara þegar farið er að nota ákveðin inngrip, en það er samt eitthvað sem mér finnst dálítið sérkennilegt. Mig langar að vitna í hv. þm. Hildi Sverrisdóttur þegar hún flutti sitt mál:

„Kannski má í þessu samhengi minna á að íslenska ríkið gerir ekki kröfu um sambúðarform áður en fólk eignast börn, blessunarlega, því það myndi líka eflaust kalla á helst til mikla skriffinnsku á börum bæjarins. […] Fyrir utan þann augljósa punkt að við erum nú ekki mikið að skipta okkur af því af hverju og í hvernig aðstæðum og á hvaða hátt fólk vill almennt eignast börn.“

Það er einmitt þetta, við eigum auðvitað ekki, þrátt fyrir að um inngrip sé að ræða og við þurfum að stíga varlega til jarðar, ég er ekki að gera lítið úr því, að torvelda þessa, að manni finnst, sjálfsögðu þjónustu.

Ég heyri ekki annað en að þeir sem hér eru í salnum a.m.k. og hafa tjáð sig séu sammála um þetta mál þannig að ég trúi því og treysti að við klárum að afgreiða það hér fyrir sumarið. Um er að ræða gríðarlega réttarbót fyrir mjög marga og ekki síst ef við náum að taka enn betur utan um það sem ég var að fara yfir, sem ég tel að við þurfum að gera.

Ég þarf ekki að lengja þessa umræðu en ég vil bara segja það, af því að hér var einokun á þessari starfsemi nefnd, að ég man þá tíð þegar þetta var á Landspítalanum. Þetta er dæmi um ja, ekki útvistun heldur ákváðu þessir aðilar að fara út í einkarekstur, fóru út af spítalanum og fóru í þennan einkarekstur sem kostar enn meira núna en það kostaði þá hlutfallslega. Þarna er örugglega undir tækniþekking, læknisfræðileg þekking eðli máls samkvæmt og svo eflaust mikill kostnaður í tækjum og öðru slíku og eftirfylgni. Það er súrt að það skuli bara vera einn aðili sem er með þessa starfsemi, ég tek undir það, að það séu ekki fleiri. Ég hefði náttúrlega helst viljað hafa þetta í hinum opinbera geira, ég segi það nú bara og það ætti ekki að koma neinum á óvart. Ég hefði viljað að þetta væri með öðrum hætti en er í dag. En við eigum þó kost á þessu hér og ekki þurfa allir að fara erlendis þó að einhverjir hafi kosið það og hafi sannarlega þurft að gera það, bæði vegna þess að lagaverkið og annað hefur ekki heimilað annað.

Ég fagna þessu máli og þakka ráðherranum fyrir að leggja það fram. Ég ítreka að nefndin fari yfir málið með tilliti til athugasemda, sem mér heyrist allar vera ósköp ágætar, og hægt sé að taka tillit til, og vinni málið þannig að við klárum það fyrir vorið.