Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[15:15]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að koma að þessu máli og fjalla um það úr eilítið annarri átt en mest hefur verið til umræðu við þessa 1. umr. um frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra. Hér er, eins og kunnugt er, verið að leggja til breytingar sem gera það að verkum að ef fyrir liggur vottað og skriflegt samþykki viðkomandi um að eftirlifandi maka sé heimilt að nýta kynfrumurnar sem fyrir liggja þá megi gera það. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við lesum ekki of mikið í þessar breytingar. Þetta eru vissulega breytingar, ákveðið réttlætismál sem er hér á ferðinni sem hefði ekki getað verið á ferðinni fyrir hálfri öld líklega — hvenær fæddist fyrsta glasabarnið, líklega 1977? — af því að tæknin var ekki fyrir hendi. Það hefði ekki verið viðfangsefni fyrir svo löngum tíma. En hér er sem sagt samkvæmt þessu frumvarpi gerð krafa um sambúð eða hjónaband og að fyrirframupplýst samþykki sé fyrir hendi þannig að eftirlifandi maki geti nýtt kynfrumurnar eða fósturvísinn. Ég geri engar athugasemdir við það og mér finnst það til fyrirmyndar og algerlega nauðsynlegt að fyrir liggi upplýst samþykki í þessu máli og eitt af því sem ætti alltaf að vera, og hefur sem betur fer verið innleitt í heilbrigðisþjónustu almennt, að fyrir liggi upplýst samþykki þegar eitthvað þarf að gera. Þannig hefur það ekki alltaf verið. Við erum svo fljót að gleyma, eins og fram kom í máli hv. þingkonu Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. En kannski er það af því að framfarir hafa orðið meiri en við gerum okkur grein fyrir eða erum kannski ekki alltaf að hugsa um það á þeim nótum.

Ég er líka mjög ánægð að sjá að einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði sifjaréttar, prófessor Hrefna Friðriksdóttir, hefur verið höfð með í þessu og ber væntanlega ábyrgð á einhverjum texta í þessu frumvarpi vegna þess að þá veit ég að allar hliðar málsins hafa verið hugsaðar og reynt að sjá fyrir alla hugsanlega möguleika sem upp geta komið við þessar aðstæður. Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að ég geri ekki athugasemdir við frumvarpið eins og það er. Mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að leyfa mér af þessu tilefni að ræða aðeins um nauðsyn þess að heilbrigðisþjónusta og einstaklingsfrelsi sé alltaf sett í siðfræðilegt og siðferðilegt samhengi vegna þess að það er algjörlega nauðsynlegt. Við megum heldur aldrei gleyma því þegar við tölum um ósk langflestra sem draga andann á jörðinni, óskina um að eignast barn, að þá vitum við líka að sú ósk getur aldrei talist mannréttindi, aldrei. Það er einfaldlega vegna þess að mannréttindum fylgja skyldur. Það getur enginn uppfyllt þá skyldu fyrir annan einstakling. Það er hægt að hjálpa fólki, ríkisvaldið hjálpar fólki, ríkisvaldið hefur bæði stutt og styrkt ættleiðingar, glasafrjóvganir, tæknifrjóvganir o.s.frv. og að sjálfsögðu á ríkisvaldið að gera það. En við leysum ekki allan vanda, ég ætla að leyfa mér að orða það þannig. Við verðum að hafa það alltaf fremst í okkar huga þegar við fjöllum um þessi mál, sérstaklega þegar við komum að barneignum, að það verður til nýr einstaklingur. Þetta eru ekki bara kynfrumur. Það verður nefnilega við getnað til nýr einstaklingur sem vonandi nær að fæðast og koma í heiminn og hljóta allt það góða atlæti sem hver manneskja á rétt á. Þessi einstaklingur hefur líka óskir og þarfir, m.a. um að þekkja uppruna sinn. Það þarf líka að hafa það í huga og þess vegna er svo mikilvægt að frumvarpið sé skrifað með þessum hætti. Það liggur fyrir ef faðirinn t.d. féll frá, hver hann er og barnið á þá sögu af því að við skulum ekki vanmeta þörf fólks til að þekkja uppruna sinn. Hún virðist vera inngróin í okkur öll.

Það er líka annað í þessu sem er líka lagalega mjög mikilvægt og það er að réttindi eins og erfðaréttur séu algjörlega skýr, að það fari ekkert á milli mála hver lagaleg staða barnsins og hver réttur barnsins sé, t.d. til erfða. Það finnst mér við fyrstu sýn vera tryggt ágætlega í þessu frumvarpi. Ég veit að hv. velferðarnefnd mun skoða það mjög vandlega og treysti henni algjörlega til þess. Við verðum að hafa um þessi mál mjög skýra og sanngjarna löggjöf sem alltaf stenst skoðun þegar hún er skoðuð frá sjónarhóli réttinda barnsins. Það er algjörlega nauðsynlegt og ég treysti því að það verði haft að leiðarljósi í umfjöllun velferðarnefndar um þetta ágæta frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra.

Mig langar rétt í lokin að nefna það sem hér hefur aðeins verið drepið á í umræðunni, þ.e. frjósemi og það séu ekki allir jafn frjóir og áður voru og allar þessar pælingar. Ég held að við vitum alveg, alla vega í okkar velsældarsamfélagi, hvers vegna það er. Það er vegna þess að fólk eignast börn miklu seinna en það gerði áður og það er munur á 20 og eitthvað og 30 og eitthvað og 40 og eitthvað. Þetta þekkjum við öll. Frjósemispólitík getur tekið á sig rosalega ljótar myndir, nefnilega, hún er t.d. að gera það núna í Bandaríkjunum, mjög ljótar myndir. Við verðum líka alltaf að hafa í huga frelsi einstaklinganna þegar kemur að því og þess vegna er eiginlega ótrúlegt að hugsa til þess að það séu örfá ár síðan að hér í þessu húsi, á löggjafarsamkomunni, samþykktum við lög um þungunarrof sem standast kröfurnar sem til þeirra þarf að gera. Það er líka hluti af þessu máli. Athugum það, það er líka hluti af þessu máli að sjálfsákvörðunarréttur kvenna, leghafa, sé alltaf virtur.