153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

staða leigjenda og aðgerðir á leigumarkaði.

[14:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að húsnæðismálin hafa verið í brennidepli að undanförnu, bæði það sem lýtur að framboði á húsnæði, hvort heldur er hjá þeim sem eru að leigja eða vilja kaupa. En staða leigjenda er það sem ég vil aðeins leggja upp með hér, enda er vitað að leigjendur eru meðal þeirra sem hvað erfiðast eiga með að ná endum saman. Húsnæðismál eru líka kjaramál og fyrir flest fólk stærsti útgjaldaliður þess, sér í lagi fyrir fólk á leigumarkaði. Ég veit að hæstv. ráðherra er mér sammála um að það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið og mikilvægt að tryggja aðgengi alls fólks að viðunandi húsnæði. Við Vinstri græn teljum að gera þurfi umbætur í þágu leigjenda og tryggja bætt réttindi þeirra. Þetta lýtur m.a. að auknum fyrirsjáanleika vegna hækkana á leiguverði og lengd leigusamninga. Við teljum að það þurfi að setja skýrari leikreglur á leigumarkaði og stemma stigu við óhóflegum verðhækkunum leigufélaga og leigusala. Það er jú ekki hlutverk leigjenda að greiða af húsnæðisskuldbindingum leigusala þó svo að sá háttur hafi lengi tíðkast hér á landi.

Ég veit að hæstv. ráðherra er með starfshópa sem eru að fjalla um þessi mál og ég vil spyrja hvernig þeim störfum miðar. Ekki síst vil ég líka nefna leigubremsu sem ég tel að gæti gagnast vel og hefur oft verið nefnd í þessum sal og ég vil spyrja ráðherrann hvort hann hafi skoðað leigubremsu af einhverri alvöru og hvort hann telji að slíkt úrræði geti gagnast við að bæta húsnæðismarkaðinn hér á Íslandi.