Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og ég hef sagt hér þegar við höfum verið að ræða þessi mál þá er auðvitað útskýringin sú að það er verið að huga að leiðum til að auðvelda þetta, eins og segir í lið 7.4. Það er alltaf markmið okkar. Í hinu málinu var kveðið dálítið fastar að orði þar sem kolefnissporið var beinlínis sett sem krafa. Þarna erum við hv. þingmaður á sama máli, að ég tel, þ.e. við viljum að þetta sé það sem öll matvæli komi til með að bera, að við getum séð þessar upplýsingar um kolefnissporið. Þess vegna er engin ástæða til að taka þetta út af því að við viljum auðvelda neytendum að sjá þetta og, eins og kemur fram hér líka, íþyngja ekki framleiðendum, bændum, í því hvernig farið verður að þessu, eins og kemur fram í nefndarálit okkar um þessi mál. Ég held að við séum sammála því. Eins og kemur líka fram í lið 2.2, um loftslagsmálin, þá er það markmið okkar að leggja mat á losun á öllu, og, eins og sagt er hér í lið 2.3, með leyfi forseta:

„Aukið verði við rannsóknir og vöktun á áhrifum íslensks landbúnaðar á loftslag og aðlögunar hans að loftslagsbreytingum.“

Það er líka sagt í fyrri hlutanum að ef stjórnvöld ætla að ná þessum markmiðum þurfi að vera hægt að leggja reglulega mat á losun vegna matvælaframleiðslu. Það er það sem við höfum gert. Við erum búin að leggja aukið fé í þessa hluti til að geta náð þessu fram og þar af leiðandi tel ég að þetta fari alveg saman og aðgerðaáætlanirnar báðar muni miða að því um leið og við fáum einhverjar tölur sem eða viðmið sem við teljum að samræmist íslenskri framleiðslu.