Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[18:40]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja þessa ræðu á því að þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni sem var hér á undan mér. Þegar kemur að landbúnaðarmálunum er alltaf gott að hafa einhvern sem lifir í þessum heimi og hv. þingmaður er jú, ég tel mig hafa reiknað það rétt út, síðasti bóndinn á Alþingi. Hér voru ansi margir bændur til forna. Það er ánægjulegt að heyra að það eru góðir hlutir í þessari landbúnaðarstefnu. En það sem ég hef helst við þessa stefnu að athuga er að það er voða lítið um fastar mælingar á því hvert eigi að ná í þessum tíu mismunandi viðfangsefnum. Þetta eru svona almennar setningar um að bæta þetta eða hvati verði skapaður til að gera hitt en ansi lítið um markmið sem hægt er að mæla og tímasetja. Þar sem um 17 ára stefnu er að ræða þá skulum við vona að það verði ekki eins og með margt annað, t.d. eins og í geðheilbrigðisstefnunni sem við ræddum fyrr í dag, að öll fjármögnunin á öllum aðgerðunum komi eftir næstu kosningar. Með öðrum orðum þá er komin ný ríkisstjórn og þá geta menn bara hætt við og gert eitthvað annað.

Þetta er hættan við að búa til svona langa stefnu. Það er samt gott að geta sett sér einhver markmið og það er mikilvægt að við hugsum frá grunni hvernig við ætlum að tryggja matvælaframleiðslu hér á landi og tryggja að bændur geti starfað, eins og hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson orðaði það, á grundvelli þess að það sem þeir starfa við sé arðbært, þannig að þeir geti lifað af því að vera bændur. Það er ekki hægt í dag og það er allt of mikið um styrki og ýmislegt annað. Það sem við þurfum að gera til að ná fram sumum af þessum markmiðum sem eru sett fram hérna er að vera tilbúin að hugsa út fyrir þann eldgamla ramma sem búvörusamningar eru. Það að þetta gekk vel að gera þetta svona fyrir 20–30 árum síðan þýðir ekki að það þurfi að vera ramminn sem við fylgjum um alla framtíð. Ég held að það sé mikilvægt að ríkið og bændur séu tilbúnir að setjast niður og hugsa upp á nýtt það hvernig við getum tryggt bændum framtíð hér á Íslandi. Tökum þennan kassa sem við erum föst inni í dag og finnum leiðir sem hleypa að nýsköpun, hleypa að nýjum aðferðum, hleypa að hugmyndafluginu þannig að við fáum fleiri bændur sem leiða okkur í áttina að bæði kolefnislausum landbúnaði og lífrænni framleiðslu. Af hverju gátu bændur eins og uppi í Kjós farið út í lífræna framleiðslu fyrir 20 árum síðan? Jú, af því þeir vildu hugsa út fyrir kassann, vildu ekki vera fastir í sömu aðferðafræði og við höfðum verið hér í mörg ár. Eins og bóndinn orðaði það sjálfur, fyrst var hlegið að honum en í dag er verið að spyrja hann: Hvernig á að gera þetta? Hvað ert þú að gera?

Já, við þurfum að brjóta nýjar leiðir í gegnum þetta og finna okkar framtíðarumhverfi þar sem við tryggjum fæðuöryggi, við tryggjum að loftslaginu sé haldið góðu, tryggjum líffræðilega fjölbreytni, hringrásarkerfið og allt það fallega sem eru fögur orð um hérna. En við þurfum að finna leiðina til að komast þangað og hún er ekki í núverandi kössum.