Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held að þetta sé einmitt sú spurning sem við þurfum að svara. Og talandi um það þá held ég að við séum svo sannarlega dæmi um það sem stjórnmálamenn, að við þekkjum aðferðirnar. Við erum sjálf með podköst og við notum þær aðferðir til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. En þetta vekur líka upp ákveðnar spurningar. Hv. þingmaður er að segja hér aðeins frá fjölskyldu sinni og börnum og barnabörnum og ég varð t.d. svolítið hugsi yfir því þegar sonum mínum fannst svolítið flott að mamma þeirra væri mætt á TikTok. Það var ekki vegna þess að sú sem hér stendur hefði ákveðið að opna slíka síðu, hef frekar haft óbeit á þeim miðli, en það er vegna þess að Ríkisútvarpið sem er rekið fyrir skattgreiðslur hefur ákveðið að vera á TikTok og það hefur ákveðið að taka klippur úr annaðhvort ræðum eða viðtölum sem tekin eru við okkur á Ríkisútvarpinu og birta þannig. Ríkismiðillinn sem á að standa undir þessa lýðræðislegu umræðu finnst það greinilega vera hlutverk sitt að taka þetta — og ég vil meina að það sem ég sagði hafi jafnvel verið tekið úr samhengi — og setja einhver örstutt sekúndubrot af því á samfélagsmiðla. Þarna er örugglega einhver stjórnandi hjá Ríkisútvarpinu sem hefur talið að það væri hluti af því að taka þátt í þessari þróun að vera á þessum miðli. En ég velti því verulega fyrir mér hvort það sé eðlilegt að slíkt sé gert af ríkismiðli fyrir skattfé og hvort þetta sé hluti af þeirra lýðræðislega hlutverki.