Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:55]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir spurninguna. Þetta er auðvitað mjög merkileg setning í nefndarálitinu og það sem mér finnst vera á bak við hana er ákveðinn grundvallarmisskilningur á einu. Þeir einkareknu miðlar sumir hverjir sem komu fyrir nefndina og hafa svo sem talað um þetta áður, og við heyrðum þetta líka á Norðurlöndunum, töluðu um að það geti verið óþægilegt að þurfa að fara á hverju ári og biðja um styrk, að það sé enginn fyrirsjáanleiki, að á hverju einasta ári þurfi að leggja inn einhverja umsögn og umsókn og rökstyðja það af hverju þú eigir að fá einhvern styrk. Það er kannski meira staðan.

Þess vegna held ég að þetta snúist allt um einhvern fyrirsjáanleika, að ef við erum með eitthvert svona kerfi þá þurfi það að vera öðruvísi heldur en með einhverri endurskoðun á eins eða tveggja ára fresti. Ég held að miðlunum sjálfum finnist það alveg svolítið óþægilegt að þurfa að sækja styrki með þessum hætti. Ég veit t.d. að þegar Ríkisútvarpið var á beinum fjárlögum þá var stundum verið að rýna í alls konar ummæli hér og þar og velta vöngum yfir því hvort einhverjir stjórnmálamenn væru raunverulega að hugsa um að skoðun þeirra á fréttaflutningi myndi mögulega hafa áhrif á fjárframlög. Því held ég að þetta geti alveg verið raunverulegur ótti þarna úti hjá einhverjum fjölmiðlum. En ég held hins vegar að því fyrirsjáanlegri sem rekstur miðla er, hvort sem þeir eru á forræði ríkisins eða styrktir af ríkinu, hvort sem um er að ræða einhverjar skattaívilnanir eða eitthvað þess háttar, því fyrirsjáanlegra sem þetta er — og að þetta nái ekki bara yfir eitt ár í einu, að þetta sé til lengri tíma eins og t.d. tíðkast á Norðurlöndunum með beinu styrkina — það held ég að sé miklu æskilegra.