Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fordæming ólöglegs brottnáms úkraínskra barna.

1122. mál
[18:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Eins og kemur fram í greinargerð með þessari þingsályktun þá hittum við, fulltrúar úr utanríkismálanefnd, og aðrir þingmenn varaforseta úkraínska þingsins og aðra þingmenn hér fyrr í maí og þeirra hlutverk var m.a. sérstaklega það að vekja athygli þjóðþinga um alla Evrópu á þessum skelfilegu atburðum. Ég get alveg sagt það að við sem hlustuðum á lýsingarnar á þessum fundi grétum. Það hvernig Rússland kemur fram við börn er algerlega óásættanlegt og það var því mjög auðvelt fyrir okkur öll sem hlýddum á þetta að fara til fulltrúa úr öllum flokkum og fá strax stuðning við þessa fordæmingu. Það er mikilvægt að átta sig á að það er ekki algengt að Alþingi taki svo hart til orða í þingsályktun gagnvart öðrum löndum. En hér er um að ræða hlut sem skiptir miklu máli og mig langar í þessu sambandi að nefna það að í gær opnaði úkraínska ríkisstjórnin miðstöð til að styðja við þau börn sem tekist hefur að ná til baka til Úkraínu, því miður ekki nógu mörg sem hafa náð því.

Það var rætt hér aðeins áðan um fjöldann. Það eru a.m.k. 20.000 börn sem hafa verið tekin en samkvæmt upplýsingum frá frjálsum félagasamtökum gæti þessi tala verið allt að 300.000 börn. Við erum að tala um það að fjarlægja íslensku þjóðina og hafandi starfað við mannúðarstarf undanfarna tvo áratugi þá hef ég upplifað það af eigin raun hversu mikilvægt það er að styðja við börn sem hafa gengið í gegnum slíka erfiðleika, hvort sem slíkir erfiðleikar eru af hendi náttúrunnar eða hendi stríðs eða annarra hluta sem mannskepnan gerir hvert öðru. Það er ágætisreynsla sem fæst af því að aðstoða börn sem hafa farið í gegnum slíkt með sálrænni hjálp og við Íslendingar höfum sérstaklega viljað styðja við mannúðarmál í Úkraínu og önnur mál sem eru ekki beinn hernaður, enda við herlaust og friðsælt ríki.

Og mig langar að hvetja hæstv. utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, til þess að íhuga það hvort við getum ekki fundið leiðir til þess að hluti af framtíðarstuðningi við Úkraínu verði í formi þess að við tryggjum að sálfræðingar í Úkraínu fái þjálfun bestu aðila sem hægt er að finna, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir, í áfallahjálp barna. Vegna þess að börnin upplifa þessa hluti öðruvísi en við og það er mikilvægt að vinna með þeim úr þessum hlutum á máta sem þau geta notið góðs af. Eins og ég segi, það eru til félagasamtök, frjáls félagasamtök, sem hafa sérhæft sig í þessu. Ef ég man rétt hefur t.d. Barnaheill á heimsvísu verið að gera slíka hluti og aðrir. Við hljótum að geta fundið leiðir til að virkja þessa þekkingu og byggja hana upp rétt eins og slökkviliðsmenn héðan af höfuðborgarsvæðinu eru í dag að hjálpa til við að þjálfa fólk til að þjálfa hermenn í fyrstu hjálp. Þannig að það eru stór tækifæri hér þegar kemur að þessu ákveðna verkefni, ekki bara að vera með fordæminguna sem þingsályktun og yfirlýsingu sem ég veit að allt Alþingi stendur bak við, heldur að fylgja því eftir með sérstökum áherslum á það að styðja við þau börn sem koma til baka. Og ef við getum einhvern veginn líka hjálpað til við að vera milligönguaðilar um að hjálpa til við að koma þessum börnum til baka, kannski þegar stríðinu lýkur eða jafnvel fyrr, þá eigum við að gera það. Þetta er verkefni sem við getum gert sem íslensk þjóð.

En mig langar að lokum að þakka hv. þingmönnum úr öllum flokkum fyrir að svara þessu ákalli frá Úkraínu. Ég veit að nú þegar, eftir samskipti mín við aðila úr úkraínska þinginu, að þau eru ótrúlega þakklát fyrir að við hlustum. Og ekki bara að við hlustuðum heldur að við erum að framkvæma, við erum að fordæma. Það er nákvæmlega þannig sem lítil þjóð eins og Ísland getur haft stór áhrif á alþjóðlegum vettvangi.

Frú forseti. Slava Ukraini. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)