153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu .

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og ég hef nú miklar mætur á hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þá verð ég að segja að mér finnst þetta dæmalaus málflutningur og nánast eins og hv. þingmaður sé lostinn minnisleysi því að hér eru svo sannarlega búnar að vera mótvægisaðgerðir vegna stöðunnar í efnahagsmálum allt árið. Ég get rifjað það upp einu sinni enn fyrir hv. þingmanni, t.d. aukinn húsnæðisstuðningur, hvernig bætur almannatrygginga hækkuðu um tæp 9% á árinu 2022 og um 7,4% þann 1. janúar 2023. Ég nefni eignamörkin í vaxtabótakerfinu, hækkun barnabóta, frítekjumark atvinnutekna og auðvitað persónuafslátt og þrepamörk sem hækkuðu í byrjun árs. Hér er talað eins og ekkert hafi verið gert. Það er rangt, herra forseti. Á sama tíma hefur það verið algerlega skýrt af hálfu ríkisstjórnarinnar að við stöndum vörð um grunnþjónustuna. Við erum ekki að fara að gefa neitt eftir af þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað á undanförnum árum.

En er ekkert aðhald í fjármálaáætluninni? Jú, þar er verið að leggja til 18 milljarða í tekjuöflun og hátt í 18 milljarða í aðhald í rekstri ríkisins. Þetta er afgreitt sem ekkert aðhald. Það er einfaldlega rangt. Það er hins vegar svo að við höfum verið að skoða þær umsagnir sem komið hafa um fjármálaáætlun. Það er eðlilegt að bregðast við því og þess vegna mun ríkisstjórnin gera það að tillögu sinni að flýta gildistöku fjármálareglna eins og lagt er til af hálfu ýmissa umsagnaraðila. Það verður líka lagt í sérstakar aðgerðir til að mæta framboðshliðinni á húsnæðismarkaði og þar þarf að gefa í. Þar er ég að tala um stofnframlög til almenna íbúðakerfisins sem við munum hækka. En á móti munum við draga úr framkvæmdum í öðrum byggingarframkvæmdum því við ætlum ekki að auka þensluna með okkar aðgerðum sem snúast um það að tryggja kjör almennings í þessu landi í gegnum verðbólguna. Það liggur líka fyrir, og þetta veit hv. þingmaður ósköp vel, að hér hefur auðvitað staðið yfir vinna, m.a. með aðilum vinnumarkaðarins, sem snýr að réttarstöðu leigjenda, mögulegri leigubremsu til að tryggja aukinn stöðugleika á leigumarkaði en sömuleiðis hvernig við getum aftur unnið í framboðshliðinni á húsnæðismarkaði. (Forseti hringir.) Þannig að koma hér upp og láta eins og ekkert hafi verið gert — það er rangt.