153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu .

[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ó, vakna þú, mín Þyrnirós. Og það er loksins að Þyrnirós er að rumska. Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hennar. Eftir 13 stýrivaxtahækkanir í röð sér ríkisstjórnin núna loksins tækifæri á því að bregðast við til að svara fólkinu sem fer úr 140.000 kr. afborgun af láni í 360.000, af því að hún hefur ekki svarað því. En hún verður að segja af hverju og hvað breyttist. Hvað varð til þess að hún vaknaði af þessum þyrnirósarsvefni?

Ég vil hins vegar segja að það er mikilvægt einmitt núna að fara í breytingu á fjármálareglunum og þótt fyrr hefði verið. Það er einmitt það sem bæði Viðreisn en líka Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og fjármálaráð bentu á fyrir lifandis löngu síðan, ekki bara í þarsíðustu viku, sem virðist vera nokkurn veginn dagsetningin á því þegar forsætisráðherra rumskaði og vaknaði og þarf greinilega að hafa hraðann á. Það er boðað til aukafundar í dag, 5. júní 2023, (Forseti hringir.) þegar þetta viðfangsefni er búið að blasa við, ekki bara vikum saman heldur mánuðum saman. Ég segi: Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin er að vakna, þótt fyrr hefði verið.